Dómsmál

Káfaði á og kleip í unga sam­starfs­konu eftir árs­há­tíð

Héraðs­dómur Reykja­víkur dæmdi ný­verið karl­mann í þriggja mánaða fangelsi, skil­orðs­bundið, fyrir að hafa brotið á stúlku sem var í vinnu hjá honum. Maðurinn káfaði á henni og hafði kyn­ferðis­leg um­mæli um út­lit hennar á árs­há­tíð vinnu­staðarins sem þau unnu á.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í málinu. Fréttablaðið/Stefán

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi nýverið karlmann í þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið, fyrir kynferðislega áreitni og brot gegn barnaverndarlögum. Maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa áreitt stúlku sem vann með honum á veitingastað og viðhaft kynferðisleg ummæli um útlit hennar.

Atvikið átti sér stað á skemmtistað í miðbænum þar sem vinnustaðurinn hélt árshátíð. Í dómi héraðsdóms segir að maðurinn hafi verið mjög drukkinn þetta kvöld og hangið utan í kvenkyns starfsmönnum vinnustaðarins. Sagði stúlkan að maðurinn hefði klipið hana og fiktað í rassinum hennar í fimm til tíu skipti þetta kvöld.

Baðst afsökunar í smáskilaboðum en neitaði sök

Henni hafi fundist þetta óþægilegt og ekki skilið hvað átti sér stað. Hún hafi alltaf staðið í þeirri trú að hann væri góður yfirmaður. Þetta kvöld hafi hann ítrekað hversu „sexý“ honum þætti hún vera. Síðar um kvöldið stóð hún úti á svölum þegar maðurinn kom og fór með hendurnar inn á kjól hennar, strauk um bak og maga og sagði „o þú ert svo ber“ eða eitthvað á þann veg. Kvaðst hún hafa verið nálægt því að fara að gráta.

Síðar um kvöldið kom kærasti hennar á staðinn og sagði hún honum frá því sem gerst hafði. Um svipað leyti gekk hinn ákærði að kærastanum og sagði að hann væri „svo heppinn“ því hún væri svo „ógeðslega sæt“.

Kvöldinu lauk skömmu eftir það og fékk stúlkan smáskilaboð tveimur dögum síðar frá yfirmanni sínum þar sem stóð: „Þetta átti að vera smá grín en sé núna að það var viðbjóður af minni hálfu vona að þú finnir það í þér að fyrirgefa mér.“

Í kjölfarið þurfti stúlkan að leita sér aðstoðar sálfræðings þar sem hún lýsti kvíða og að hún væri mjög vör um sig eftir atvikið. Hún ætti í erfiðleikum með að treysta öðrum eftir þetta og táraðist við að hugsa um málið.

Í yfirburðastöðu gagnvart stúlkunni

Ákærði neitaði sök í málinu. Sagði hann að hann hafi kitlað stúlkuna „á hliðunum“ en kjóllinn hennar var opinn. Eftir það hafi þau ekki átt frekari samskipti það sem eftir lifði kvölds. Kvaðst hann hafa hitt kærasta stúlkunnar og sagt honum að passa upp á hana því hún væri orðin svo drukkin.

Daginn eftir hafi honum borist hótanir og þess krafist að hann myndi greina frá því á Facebook að hann væri „pervert“. Einnig hafi verið hringt í fjölskyldumeðlimi hans og hann því orðið skelkaður og ákveðið að senda henni skilaboð til málamiðlunar.

Framburður stúlkunnar var tekinn trúverðugur fyrir dómi enda hafi hann verið stöðugur og mat sálfræðings legið fyrir í málinu. Maðurinn hafði ekki gerst sekur um refsivert brot áður. Við ákvörðun refsingarinnar hafi hins vegar verið tekin inn í myndina sú staðreynd að maðurinn var í yfirburðastöðu gagnvart stúlkunni og þá var töluverður aldursmunur þeirra á milli.

Er hann því, sem fyrr segir, dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og gert að greiða stúlkunni hálfa milljón í miskabætur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í heild.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Dómsmál

Warner og Uni­ver­sal hafna full­yrðingum Jóhanns

Dómsmál

Neita að borga girðingu uns dómsmáli um rétt til smölunar lýkur

Dómsmál

Fangelsisdómar í Icelandairmáli

Auglýsing

Nýjast

For­maður ASÍ: „Verður ekki til að liðka fyrir við­ræðum“

Telja allt að tólf hafa orðið undir snjó­­flóði

Sól­veig Anna um til­lögurnar: „Ljóst hvert stefnir“

Vil­hjálmur afar von­svikinn

Leggja til nýtt skattþrep fyrir lágtekjufólk

„Allar kjara­­deilur leysast að lokum“

Auglýsing