Lands­réttur stað­festi á þriðjudaginn úr­skurð Héraðs­dóms Reykjavíkur um gæslu­varð­hald yfir karl­manni sem sakaður er að hafa brotið kyn­ferðis­lega á ungri stúlku meðan hún hafði gist á heimili mannsins. Manninum er gefið að sök að hafa í­trekað strokið fætur, læri og rass stúlkunnar undir teppi er hún svaf í sófa á heimili hans.

Skýrslur verða teknar af brota­þola og öðrum við­stöddum aðilum í fyrra­málið en gæslu­varð­hald yfir manninum lýkur klukkan 16:00 á morgun, á­tjánda októ­ber. Krafa lög­reglu um að maðurinn skyldi sæta ein­angrun meðan gæslu­varð­haldi stendur var þó hafnað þar sem ekki þóttist sannast að nauð­syn væri fyrir slíkum að­gerðum.

Spurði hvort karl­menn hefðu borgað henni

Í úr­skurði héraðs­dóms kemur fram að maðurinn hafi boðið stúlkunni sem um ræðir og þremur öðrum að gista hjá honum en stúlkan gisti á sófanum með einni annarri á meðan hinar tvær gistu inni í svefn­her­bergi. Stúlkan sagðist hafa vaknað við það að kærði settist hjá henni í sófanum og spurt hvort að karl­menn hefðu ein­hvern tíma borgað henni en hún kvaðst ekki hafa skilið spurninguna og farið aftur að sofa.

Stúlkan hafi síðan vaknað aftur við það stuttu síðar að maðurinn væri að káfa á sér undir teppinu en að sögn stúlkunnar stóð verknaðurinn yfir í um tuttugu mínútur. Hún hafi verið mjög hrædd og þóttist vera sofandi. Eftir að maðurinn fór vakti hún hina stelpuna í sófanum og hringdi eftir að­stoð sem kom skömmu síðar.

Sprautu­nálar í sófanum sem stelpurnar sváfu í

Maðurinn var hand­tekinn þegar hann kom úr í­búðinni og var í annar­legu á­standi. Fram kemur í úr­skurðinum að í­búðin hafi verið ó­snyrti­leg og blóð­dropar víða auk þess sem sprautu­nálar með leifum af fíkni­efnum fundust í í­búðinni, meðal annars í sófanum sem stúlkurnar sváfu í.

Brot mannsins varða aðra máls­grein 202. greinar al­mennra hegningar­laga númer 19/1940 auk á­kvæða barna­verndar­laga númer 80/2002 en maðurinn neitar sök. Hann segist ekki vita hvað hafi gengið á þar sem hann hafi sofnað á sófanum eftir að hafa sprautað sig með kókaíni.

Úrskurðinn má lesa í heild sinni á heimasíðu Landsréttar.