„Frá sjónarhóli neðansjávarfornleifafræðinnar er þetta skip býsna sérstakt með tilliti til þess hvernig það hefur varðveist,“ segir Kevin Martin fornleifafræðingur um hollenska kaupskipið Melckmeyt sem sökk árið 1659 og liggur á hafsbotni við Flatey á Breiðafirði.

Kafararnir Erlendur Guðmundsson og Sævar Árnason fundu flak Melckmeyt í gömlu höfninni í Hafnarey við Flatey árið 1992. Melckmeyt er elsta þekkta skipsflak landsins. Melckmeyt þýðir mjaltastúlka.

Annar helmingur skipsins var rannsakaður er kafað var að flakinu árið 2016. Á mánudag var verkinu haldið áfram og ætla Kevin og félagar hans, Fraser Cameron frá Iceland Dive Expeditions, Héðinn Þorkelsson frá Diving Island og John McCarthy, doktorsnemi við Flinders háskóla í Ástralíu, að kortleggja hinn helming flaksins. Sjálfur er Kevin doktorsnemi í fornleifafræði við Háskóla Íslands.

Stormur hrakti Melckmeyt upp í kletta við Flatey í október 1659 og tókst skipverjunum fimmtán ekki að losa það. Einn úr áhöfninni drukknaði. Þeir sem lifðu höfðu vetursetu í Flatey. Skipið hafði verið fulllestað fyrir brottför til Amsterdam. Farmur Melckmeyt var að sögn Kevins fiskur, kjöt og fleira.

Kevin segir mjög fátítt að viðir í hollenskum skipum frá sautjándu öld hafi varðveist. „Flest fúna þau burt og oft er það eina sem eftir stendur fallbyssur og leirmunir en sjaldgæft er að timbrið varðveitist. Þetta skip er það elsta sem fundist hefur við Ísland,“ segir hann.

Að sögn Kevins er ætlunin að kortleggja þann helming flaksins sem eftir stendur á stafrænan hátt á þessu ári. Verkefnið er unnið með styrk úr Fornminjasjóði Minjastofnunar Íslands.

„Við vonumst til að staðfesta hverrar tegundar skipið var þar sem það er ekki enn 100 prósent öruggt. Á árinu 2016 tókum við sýnishorn af viði til að greina árhringi og gátum þannig tímasett eikarviðina til áranna 1620 til 1635 og fundið út að þeir voru höggnir í Norður-Þýsklandi,“ segir Kevin.

Leiðangursmenn þurfa að kafa að flakinu og fjarlægja botnleðju og þang handvirkt. „Ef einhverjir hlutir eða leirmunir finnast þarf að mæla þá og mynda áður en þeir eru teknir. Öll gögnin verða á endanum notuð til að gera þrívíddarlíkan af skipsflakinu,“ segir Kevin Martin.