Fleiri konum í sér­stak­lega við­kvæmri stöðu er neitað um efnis­með­ferð og vísað frá landi en áður. Lög­maður hefur á­hyggjur af stefnu­breytingu sem á sér ekki stoð í lögum eða reglu­gerð.

„Það virðist vera ný stefna í gangi og ég byggi það á því að fleiri svona mál eru að berast mér núna en áður,“ segir Claudia Ashani­e Wil­son, lög­maður hjá Rétti.

„Þetta eru konur sem hafa orðið fyrir marg­þættu of­beldi eins og um­skurði sem er verið að vísa aftur til Grikk­lands,“ segir Claudia.

Hún tekur sem dæmi konu frá Afríku­landi sem kom hingað til lands í júní á þessu ári. Henni var mis­þyrmt kyn­ferðis­lega sem barni, hóp­nauðgað á full­orðins­árum og svo í Grikk­landi, eftir að hafa flúið, var hún einnig beitt of­beldi þar.

„Það á að senda hana aftur til Grikk­lands þar sem hún var auð­vitað heimilis­laus,“ segir Claudia og bætir við:

„Það er eins og við kærum okkur ekki lengur um konur í þessari stöðu, sér­stöðu þeirra og jafn­réttis­stefnu okkar, þar með talið um að vernda konur frá of­beldi. Það er eins og það nái ekki til þessara hópa kvenna. Þess í stað er þeim vísað aftur út í ó­mann­úð­legar að­stæður. Það er full á­stæða til að hafa á­hyggjur af þessari þróun.“

Var nauðgað og beitt kynfæralimlestingum

Claudia gerir einnig al­var­legar at­huga­semdir við það að stjórn­völd gera ráð fyrir að um­sækj­endur afli heilsu­fars­gagna en það er svo í höndum Út­lendinga­stofnunar hvort þau fái svo að hitta lækni eða fái aðra heil­brigðis­þjónustu og hefur komið fyrir að stofnunin neiti að bjóða upp á þessa þjónustu. Claudia tekur fram að þegar heilsu­fars­gögn liggja ekki fyrir þá er það skrifað upp á um­sækj­endur undir með­ferð máls og hefur á­hrif á niður­stöðu mála.

Í til­viki um­bjóðanda Claudiu segir hún að Út­lendinga­stofnun hafi ekki sent á­fram upp­lýsingar um að konan ætti að fara til skurð­læknis en hún varð fyrir kyn­færa­li­m­lestingum og svo þegar henni var nauðgað var saumurinn opnaður með hnífi.

Claudia segir að konan glími við fjöl­þættan heilsu­fars­vanda vegna þessa sem hún þurfi nauð­syn­lega á læknis­að­stoð að halda við.

Claudia í­trekar að þegar konan var í Grikk­landi var hún heimilis­laus og heil­brigðis­þjónusta ekki að­gengi­leg henni.

Hún segir að henni sé kunnugt um að minnsta kosti þrjú mál af þessu tagi og að það eigi að vísa öllum konunum aftur til Grikk­lands, þar sem þær eru fyrir með vernd.

Skilur ekki hvert er verið að stefna

Claudia segist ekki skilja hvert er verið að stefna í mál­efnum flótta­fólks. Áður fyrr var í máls­með­ferð stjórn­valda á­vallt tekið til­lit til sér­stöðu kvenna og annarra í við­kvæmri stöðu en hún telur að túlkun yfir­valda hafi verið þrengd til muna.

„Túlkun stjórn­valda um réttar­á­hrif við­kvæmrar stöðu um­sækj­enda um al­þjóð­lega vernd er orðin sú að það hefur einkum á­hrif á hvers konar þjónustu ber að veita hér­lendis, vegna við­kvæmrar stöðu þeirra, en hefur ekki á­hrif á niður­stöðu mála þeirra,“ segir Claudia og að hún geti ekki fallið á þá laga­túlkun.

„Ég get því miður ekki fallist á þá laga­túlkun einkum þegar horft er til þeirra al­þjóð­legu mann­réttinda­samninga sem Ís­land er aðili sem gera ein­mitt ráð fyrir að tekið sé til­lit til við­kvæmrar stöðu þessara hópa, þar með talið kvenna­sátt­máli Sam­einuðu þjóðanna, mann­réttinda­sátt­máli Evrópu og svo mætti lengi telja. Við­kvæm staða fólks á víst að koma til skoðunar þegar á­kvörðun er tekin um að vísa því aftur til Grikk­lands,“ segir Claudia á­kveðin.

Við­kvæm staða fólks á víst að koma til skoðunar þegar á­kvörðun er tekin um að vísa því aftur til Grikk­lands

Hún segir að það sé skýr­lega hægt að sjá þessa breytingu í úr­skurðum kæru­nefndar þar sem að til dæmi, árið 2017 var vísað til þess að sér­stakar á­stæður séu í málinu og að litið sé til heilsu­fars­á­stæðna og sér­stak­lega við­kvæmrar stöðu fólks en að núna segi að sér­stak­lega við­kvæm staða hafi einungis á­hrif á þá þjónustu sem að fólk fær á meðan það er á landinu.

Claudia segir að reglu­gerð um út­lendinga sem þá­verandi dóms­mála­ráð­herra setti árið 2018 hafi þrengt mjög hvað telst til sér­stakra á­stæðna, en sú reglu­gerð hefur verið notuð miskunnar­laust af stjórn­völdum jafn­vel með of­túlkun og deila mætti um laga­gildi reglu­gerðarinnar og hvort sé ekki jafn­vel að ganga lengra en hin um­deilda reglu­gerðin heimilar“, segir Claudia.

Albert Björn Lúðvígsson, lögfræðingur hjá Rauða krossi Íslands, er sérfræðingur í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd.
Fréttablaðið/Eyþór

Lúxus að fá að vinna úr á­föllum

Albert Björn Lúð­vígs­son, lög­fræðingur á vegum Rauða krossins á Ís­landi, tekur undir orð Claudiu. Hann segir að þegar nýju út­lendinga­lögin voru sett hafi þeim fylgt lof­orð um að til­lit verði tekið til þeirra sem séu í sér­stak­lega við­kvæmri stöðu og í því sam­hengi hafi verið skil­greint hverjir falla undir þá stöðu og Út­lendinga­stofnun, eða út­lendinga­yfir­völdum, gert að rann­saka það svo hægt sé að á­kvarða hvort hælis­leitandi falli undir þá stöðu.

Albert segir að enn í dag sé ekki skýrt hver beri á­byrgð á þessu mati. Það segi í lögunum að það eigi að vera sér­fræðingar en í mörgum til­fellum séu það að­eins starfs­menn Út­lendinga­stofnunar, sem hafi enga menntun til slíks, sem meti það hvort hælis­leitandi sé í sér­stak­lega við­kvæmri stöðu.

Hann segir að mat á við­kvæmri stöðu sé því ekki rétt fram­kvæmt og ekki sinnt sem skyldi þannig staða ein­stak­linga liggi í raun ekki fyrir og þeim því ekki boðin þjónusta við hæfi eða eftir raun­veru­legi þörf.

„Jafn­vel þó hælis­leitandi falli aug­ljós­lega undir skil­greiningu laga um sér­stak­lega við­kvæma stöðu þá neitar Út­lendinga­stofnun og kæru­nefnd út­lendinga­mála oft að fella við­komandi undir skil­greininguna. Þetta gengur engan veginn upp,“ segir Albert, aug­sýni­lega ó­sáttur.

Jafn­vel þó hælis­leitandi falli aug­ljós­lega undir skil­greiningu laga um sér­stak­lega við­kvæma stöðu þá neitar Út­lendinga­stofnun og kæru­nefnd út­lendinga­mála oft að fella við­komandi undir skil­greininguna. Þetta gengur engan veginn upp

Hann segir að þó ein­stak­lingur hafi lent í grófum pyntingum eða kyn­færa­li­m­lestingum sé honum þannig hafnað sýni hann ekki nægi­lega al­var­lega and­lega van­líðan. Á sama tíma sé honum hins vegar hafnað um sál­fræði­greiningu og að­eins sendur í „stöðu­tjékk“ hjá sál­fræðingi á Göngu­deild sótt­varna.

Því liggi ekki til grund­vallar á­reiðan­leg gögn um þessa nauð­syn­legu and­legu van­líðan. Þá taki út­lendinga­yfir­völd að sögn Alberts ekki heldur til­lit til þess að hælis­leitandi sem kemur hingað á flótta frá Afríku eða Mið­austur­löndum sé að­eins að reyna að sinna sínum grunn­þörfum.

„Hann er að­eins að hugsa um að bjarga lífi sínu. Það er lúxus að fá tæki­færi til að vinna úr á­föllum. Það er þekkt meðal þeirra sem vinna með flótta­fólki að það kann að koma „eðli­lega fyrir.“ Það hefur, meðal annars, störf og lifir eðli­legu lífi en svo allt í einu hrynur and­leg heilsa þess þegar það er ekki lengur að berjast fyrir lífi sínu en er „bara“ að sinna venju­legum störfum,“ segir Albert.

Hann segir að fyrir ein­stæðar konur, sem hafi lent í al­var­lega of­beldi og kyn­færa­li­m­lestingum þá dugi þetta mat engan veginn til. Ekki eins og það sé núna.

„Þarna er ekki verið að fylgja því sem lagt var af stað með þegar lögin voru sett. Fram­kvæmdin er í molum og kæru­nefnd út­lendinga­mála er að ganga lengra í að sam­þykkja þessar brota­lamir með vísun til ný­legra reglu­gerðar­breytingar,“ segir Albert.

„Það er á­greiningur um hvort að þetta sé breyting eða ekki. Því slær saman í um­ræðunni að það eru þessi tvö hug­tök, sér­stak­lega við­kvæm staða sem er hug­tak sem er notað þegar er verið að fjalla um þá þjónustu sem þau eiga rétta á,“ segir Þór­hildur

Kærunefnd skerpir á sérstökum ástæðum

Þór­hildur Haga­lín, upp­lýsinga­full­trúi Út­lendinga­stofnunar, segir að það megi ekki rugla saman sér­stak­lega við­kvæmri stöðu, sem er skil­greind í lögum, og svo sér­stökum á­stæðum, sem er það sem er tekið til greina þegar um­sókn um al­þjóð­lega vernd er tekin til skoðunar eða efnis­með­ferðar.

„Það er á­greiningur um hvort að þetta sé breyting eða ekki. Því slær saman í um­ræðunni að það eru þessi tvö hug­tök, sér­stak­lega við­kvæm staða sem er hug­tak sem er notað þegar er verið að fjalla um þá þjónustu sem þau eiga rétta á,“ segir Þór­hildur og segir að sér­stak­lega við­kvæm staða geti kallað á aukna þjónustu.

„Á­kvæðið felur í sér skyldu á Út­lendinga­stofnun, sem á að veita þeim þjónustu, að taka til­lit til þess við þjónustu að þau eru í sér­stak­lega við­kvæmri stöðu,“ segir Þór­hildur.

Hún segir að við af­greiðslu mála hjá þeim sem eru þegar með vernd í öðru ríki þá beri al­mennt að taka það ekki til af­greiðslu nema að sér­stakar á­stæður mæli með því. Fjallað er um þetta í 36. grein laga um út­lendinga.

Hún segir að hún viti til þess að í úr­skurðum kæru­nefndar hafi verið að skerpa á þessum muni og að það megi greina það í úr­skurðum þeirra.

„Nefndin hefur séð á­stæðu til að út­kljá það. Fólki í sér­stak­lega við­kvæmri stöðu, það er ekki at­riði sem kemur til skoðunar þegar það kemur að því hvort það eigi að taka mál til efnis­legrar með­ferðar eða ekki. Þetta má lesa í úr­skurðum nefndarinnar,“ segir Þór­hildur og segir að sér­stakar ástæður geti haft á­hrif en að það hafi verið að skerpa á því við hvaða að­stæður það komi til greina.

Hún segir að á­kvæði um sér­stak­lega við­kvæma stöðu hafi verið í lögunum frá því að lögin voru sett árið 2016 en svo hafi ráð­herra skerpt á á­kvæði í 36. grein í breytingu á reglu­gerð árið 2018 þar sem út­skýrt er nánar hvað sér­stakar á­stæður þýði.

Fréttin hefur verið leiðrétt, fyrst var talað um sérstakar aðstæður en það á að vera sérstakar ástæður.