Fleiri konum í sérstaklega viðkvæmri stöðu er neitað um efnismeðferð og vísað frá landi en áður. Lögmaður hefur áhyggjur af stefnubreytingu sem á sér ekki stoð í lögum eða reglugerð.
„Það virðist vera ný stefna í gangi og ég byggi það á því að fleiri svona mál eru að berast mér núna en áður,“ segir Claudia Ashanie Wilson, lögmaður hjá Rétti.
„Þetta eru konur sem hafa orðið fyrir margþættu ofbeldi eins og umskurði sem er verið að vísa aftur til Grikklands,“ segir Claudia.
Hún tekur sem dæmi konu frá Afríkulandi sem kom hingað til lands í júní á þessu ári. Henni var misþyrmt kynferðislega sem barni, hópnauðgað á fullorðinsárum og svo í Grikklandi, eftir að hafa flúið, var hún einnig beitt ofbeldi þar.
„Það á að senda hana aftur til Grikklands þar sem hún var auðvitað heimilislaus,“ segir Claudia og bætir við:
„Það er eins og við kærum okkur ekki lengur um konur í þessari stöðu, sérstöðu þeirra og jafnréttisstefnu okkar, þar með talið um að vernda konur frá ofbeldi. Það er eins og það nái ekki til þessara hópa kvenna. Þess í stað er þeim vísað aftur út í ómannúðlegar aðstæður. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af þessari þróun.“
Var nauðgað og beitt kynfæralimlestingum
Claudia gerir einnig alvarlegar athugasemdir við það að stjórnvöld gera ráð fyrir að umsækjendur afli heilsufarsgagna en það er svo í höndum Útlendingastofnunar hvort þau fái svo að hitta lækni eða fái aðra heilbrigðisþjónustu og hefur komið fyrir að stofnunin neiti að bjóða upp á þessa þjónustu. Claudia tekur fram að þegar heilsufarsgögn liggja ekki fyrir þá er það skrifað upp á umsækjendur undir meðferð máls og hefur áhrif á niðurstöðu mála.
Í tilviki umbjóðanda Claudiu segir hún að Útlendingastofnun hafi ekki sent áfram upplýsingar um að konan ætti að fara til skurðlæknis en hún varð fyrir kynfæralimlestingum og svo þegar henni var nauðgað var saumurinn opnaður með hnífi.
Claudia segir að konan glími við fjölþættan heilsufarsvanda vegna þessa sem hún þurfi nauðsynlega á læknisaðstoð að halda við.
Claudia ítrekar að þegar konan var í Grikklandi var hún heimilislaus og heilbrigðisþjónusta ekki aðgengileg henni.
Hún segir að henni sé kunnugt um að minnsta kosti þrjú mál af þessu tagi og að það eigi að vísa öllum konunum aftur til Grikklands, þar sem þær eru fyrir með vernd.
Skilur ekki hvert er verið að stefna
Claudia segist ekki skilja hvert er verið að stefna í málefnum flóttafólks. Áður fyrr var í málsmeðferð stjórnvalda ávallt tekið tillit til sérstöðu kvenna og annarra í viðkvæmri stöðu en hún telur að túlkun yfirvalda hafi verið þrengd til muna.
„Túlkun stjórnvalda um réttaráhrif viðkvæmrar stöðu umsækjenda um alþjóðlega vernd er orðin sú að það hefur einkum áhrif á hvers konar þjónustu ber að veita hérlendis, vegna viðkvæmrar stöðu þeirra, en hefur ekki áhrif á niðurstöðu mála þeirra,“ segir Claudia og að hún geti ekki fallið á þá lagatúlkun.
„Ég get því miður ekki fallist á þá lagatúlkun einkum þegar horft er til þeirra alþjóðlegu mannréttindasamninga sem Ísland er aðili sem gera einmitt ráð fyrir að tekið sé tillit til viðkvæmrar stöðu þessara hópa, þar með talið kvennasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, mannréttindasáttmáli Evrópu og svo mætti lengi telja. Viðkvæm staða fólks á víst að koma til skoðunar þegar ákvörðun er tekin um að vísa því aftur til Grikklands,“ segir Claudia ákveðin.
Viðkvæm staða fólks á víst að koma til skoðunar þegar ákvörðun er tekin um að vísa því aftur til Grikklands
Hún segir að það sé skýrlega hægt að sjá þessa breytingu í úrskurðum kærunefndar þar sem að til dæmi, árið 2017 var vísað til þess að sérstakar ástæður séu í málinu og að litið sé til heilsufarsástæðna og sérstaklega viðkvæmrar stöðu fólks en að núna segi að sérstaklega viðkvæm staða hafi einungis áhrif á þá þjónustu sem að fólk fær á meðan það er á landinu.
Claudia segir að reglugerð um útlendinga sem þáverandi dómsmálaráðherra setti árið 2018 hafi þrengt mjög hvað telst til sérstakra ástæðna, en sú reglugerð hefur verið notuð miskunnarlaust af stjórnvöldum jafnvel með oftúlkun og deila mætti um lagagildi reglugerðarinnar og hvort sé ekki jafnvel að ganga lengra en hin umdeilda reglugerðin heimilar“, segir Claudia.

Lúxus að fá að vinna úr áföllum
Albert Björn Lúðvígsson, lögfræðingur á vegum Rauða krossins á Íslandi, tekur undir orð Claudiu. Hann segir að þegar nýju útlendingalögin voru sett hafi þeim fylgt loforð um að tillit verði tekið til þeirra sem séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu og í því samhengi hafi verið skilgreint hverjir falla undir þá stöðu og Útlendingastofnun, eða útlendingayfirvöldum, gert að rannsaka það svo hægt sé að ákvarða hvort hælisleitandi falli undir þá stöðu.
Albert segir að enn í dag sé ekki skýrt hver beri ábyrgð á þessu mati. Það segi í lögunum að það eigi að vera sérfræðingar en í mörgum tilfellum séu það aðeins starfsmenn Útlendingastofnunar, sem hafi enga menntun til slíks, sem meti það hvort hælisleitandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu.
Hann segir að mat á viðkvæmri stöðu sé því ekki rétt framkvæmt og ekki sinnt sem skyldi þannig staða einstaklinga liggi í raun ekki fyrir og þeim því ekki boðin þjónusta við hæfi eða eftir raunverulegi þörf.
„Jafnvel þó hælisleitandi falli augljóslega undir skilgreiningu laga um sérstaklega viðkvæma stöðu þá neitar Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála oft að fella viðkomandi undir skilgreininguna. Þetta gengur engan veginn upp,“ segir Albert, augsýnilega ósáttur.
Jafnvel þó hælisleitandi falli augljóslega undir skilgreiningu laga um sérstaklega viðkvæma stöðu þá neitar Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála oft að fella viðkomandi undir skilgreininguna. Þetta gengur engan veginn upp
Hann segir að þó einstaklingur hafi lent í grófum pyntingum eða kynfæralimlestingum sé honum þannig hafnað sýni hann ekki nægilega alvarlega andlega vanlíðan. Á sama tíma sé honum hins vegar hafnað um sálfræðigreiningu og aðeins sendur í „stöðutjékk“ hjá sálfræðingi á Göngudeild sóttvarna.
Því liggi ekki til grundvallar áreiðanleg gögn um þessa nauðsynlegu andlegu vanlíðan. Þá taki útlendingayfirvöld að sögn Alberts ekki heldur tillit til þess að hælisleitandi sem kemur hingað á flótta frá Afríku eða Miðausturlöndum sé aðeins að reyna að sinna sínum grunnþörfum.
„Hann er aðeins að hugsa um að bjarga lífi sínu. Það er lúxus að fá tækifæri til að vinna úr áföllum. Það er þekkt meðal þeirra sem vinna með flóttafólki að það kann að koma „eðlilega fyrir.“ Það hefur, meðal annars, störf og lifir eðlilegu lífi en svo allt í einu hrynur andleg heilsa þess þegar það er ekki lengur að berjast fyrir lífi sínu en er „bara“ að sinna venjulegum störfum,“ segir Albert.
Hann segir að fyrir einstæðar konur, sem hafi lent í alvarlega ofbeldi og kynfæralimlestingum þá dugi þetta mat engan veginn til. Ekki eins og það sé núna.
„Þarna er ekki verið að fylgja því sem lagt var af stað með þegar lögin voru sett. Framkvæmdin er í molum og kærunefnd útlendingamála er að ganga lengra í að samþykkja þessar brotalamir með vísun til nýlegra reglugerðarbreytingar,“ segir Albert.

Kærunefnd skerpir á sérstökum ástæðum
Þórhildur Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, segir að það megi ekki rugla saman sérstaklega viðkvæmri stöðu, sem er skilgreind í lögum, og svo sérstökum ástæðum, sem er það sem er tekið til greina þegar umsókn um alþjóðlega vernd er tekin til skoðunar eða efnismeðferðar.
„Það er ágreiningur um hvort að þetta sé breyting eða ekki. Því slær saman í umræðunni að það eru þessi tvö hugtök, sérstaklega viðkvæm staða sem er hugtak sem er notað þegar er verið að fjalla um þá þjónustu sem þau eiga rétta á,“ segir Þórhildur og segir að sérstaklega viðkvæm staða geti kallað á aukna þjónustu.
„Ákvæðið felur í sér skyldu á Útlendingastofnun, sem á að veita þeim þjónustu, að taka tillit til þess við þjónustu að þau eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu,“ segir Þórhildur.
Hún segir að við afgreiðslu mála hjá þeim sem eru þegar með vernd í öðru ríki þá beri almennt að taka það ekki til afgreiðslu nema að sérstakar ástæður mæli með því. Fjallað er um þetta í 36. grein laga um útlendinga.
Hún segir að hún viti til þess að í úrskurðum kærunefndar hafi verið að skerpa á þessum muni og að það megi greina það í úrskurðum þeirra.
„Nefndin hefur séð ástæðu til að útkljá það. Fólki í sérstaklega viðkvæmri stöðu, það er ekki atriði sem kemur til skoðunar þegar það kemur að því hvort það eigi að taka mál til efnislegrar meðferðar eða ekki. Þetta má lesa í úrskurðum nefndarinnar,“ segir Þórhildur og segir að sérstakar ástæður geti haft áhrif en að það hafi verið að skerpa á því við hvaða aðstæður það komi til greina.
Hún segir að ákvæði um sérstaklega viðkvæma stöðu hafi verið í lögunum frá því að lögin voru sett árið 2016 en svo hafi ráðherra skerpt á ákvæði í 36. grein í breytingu á reglugerð árið 2018 þar sem útskýrt er nánar hvað sérstakar ástæður þýði.
Fréttin hefur verið leiðrétt, fyrst var talað um sérstakar aðstæður en það á að vera sérstakar ástæður.