Kæru Vigdísar Hauksdóttur um ógildingu borgarstjórnarkosninga, sem fram fóru í Reykjavík fyrir rúmu ári síðan, hefur verið vísað frá. Kjörnefnd sem Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu var falið að skipa, eftir úrskurð dómsmálaráðuneytisins þann 5. júní síðastliðinn, kvað upp úrskurð sinn um málið í dag.

Vigdís kærði kosningarnar upphaflega til sýslumanns eftir að Persónuvernd gerði athugasemdir við notkun Reykjavíkurborgar á persónuupplýsingum í aðdraganda kosninganna. Vigdís segir úrskurð kjörnefndarinnar vera gríðarlegt áfall fyrir lýðræðið í landinu.

Nefndin vísaði kærunni frá vegna þess að kærufrestur er sjö dagar frá því að úrslitum kosninga er lýst. Vigdís kærði hins vegar kosningarnar tæpu ári síðar en hún hefur viljað meina að nýr kærufrestur hafi átt að hefjast daginn sem Persónuvernd birti úrskurð sinn um kosningarnar, því þar hafi komið nýjar upplýsingar fram.

„Ekki verður komist að annarri niðurstöðu en þeirri að heimilt sé að stunda kosningasvindl í lögbundnum kosningum, svo framarlega að það komist ekki upp innan umrædds sjö daga ákvæðis lagana,“ segir Vigdís í færslu á Facebook-síðu sinni sem hún birti í dag.

„Meirihlutinn ásamt borgarstjóra er rúinn trausti. Búið er að upplýsa um alvarleg lögbrot í aðdraganda kosninganna, og sé ég mér því ekki annað fært en að kæra úrskurð kærunefndarinnar til dómsmálaráðuneytisins, sbr. 3. mgr. 93. gr.“

Þegar Vigdís hefur kært þennan úrskurð nefndarinnar til dómsmálaráðuneytisins hefur hún endanlega tæmt allar kæruleiðir sem hún hefur innanlands. Hún hafði lofað landsmönnum að það skyldi hún gera.

Hér má sjá færslu Vigdísar.

Fréttatilkynning Efni: Úrskurður kjörnefndar Úrskurður kjörefndar sem Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu var falið að...

Posted by Vigdís Hauksdóttir on Tuesday, June 25, 2019