Máli bandríska lyfjafyrirtækisins AbbVie gegn hinu íslenska Alvotech vegna stuldar á viðskiptaleyndarmálum, hefur verið vísað frá dómi í Bandaríkjunum. Var það dómarinn Harry D. Leinenweber, við alríkisdómstólinn í Illinois-fylki, sem vísaði málinu frá.

Kæra AbbVie var vegna gigtarlyfsins Humira, sem fyrirtækið sakaði Alvotech um að gera eftirlíkingu af með saknæmum hætti, það er lyfið AVTO2. Humira er mest selda líftæknilyf heimsins og var söluverðmæti þess 20 milljarðar dollara á heimsvísu árið 2020.

Alvotech réð til sín vísindamanninn Rongzan Ho, sem starfaði hjá AbbVie við hönnun Humira. Samkvæmt AbbVie hafði umræddur Ho sent upplýsingar um lyfið á sitt persónulega netfang áður en hann hætti störfum hjá fyrirtækinu.

Sakaði AbbVie Alvotech um að hafa notað þessar upplýsingar sem og upplýsingar frá tveimur öðrum fyrrverandi starfsmönnum AbbVie sem Alvotech hafði ráðið. Ho sagðist hins vegar hafa eytt öllum gögnum tengdum AbbVie úr tölvum sínum þegar hann skipti um starf.