„Ljóst er að kjósendur Miðflokksins í Suðurkjördæmi keyptu köttinn í sekknum,“ segir í kæru sem undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa barst á fimmtudag. Þar eru gerðar athugasemdir við vistaskipti þingmannsins Birgis Þórarinssonar úr Miðflokknum í Sjálfstæðisflokkinn.
Sigurður Hreinn Sigurðsson skrifar undir kæruna en þar er þess krafist að Alþingi ógildi kosningu Birgis og staðfesti ekki kjörbréf hans. Þess í stað verði landskjörstjórn falið að gefa út kjörbréf til handa Ernu Bjarnadóttur, frambjóðanda Miðflokksins í Suðurkjördæmi.
Eins og komið hefur fram tilkynnti Birgir tveimur vikum eftir kosningar að hann myndi yfirgefa Miðflokkinn og ganga til liðs við þingflokk Sjálfstæðisflokksins. Miðflokkurinn fékk einn þingmann kjörinn í kjördæminu og úthlutaði landskjörstjórn kjörbréfi fyrir Birgi.
Í kæru sinni segir Sigurður að ljóst megi vera að Birgir hafi verið búinn að ákveða fyrir löngu að hann ætti ekki samleið með þeim flokki sem hann var í framboði fyrir. sérstaklega í ljósi þess sem hann sjálfur hefur lýst sem skipulegri aðför gegn sér í prófkjörsbaráttunni.
„Hvergi í lögum eða stjórnarskrá er það heimilað að þingmenn geti flutt með sér þingsæti frá einum þingflokki til annars. Þó svo að mörg fordæmi um slíkt megi finna á liðnum árum hefur það þó ekki gerst án þess að fyrir því liggi málefnalegar ástæður eða ágreiningur. Það samræmist ekki lögum um kosningar til Alþingis að atkvæði greitt einum tilteknum flokki eða framboðslista teljist sem atkvæði greitt öðrum flokki,“ segir Sigurður í kæru sinni.
Sigurður segir ljóst að kjósendur Miðflokksins í Suðurkjördæmi hafi keypt köttinn í sekknum þar sem Birgir hafði hvergi látið þess getið í aðdraganda kosninganna að unnið væri gegn honum innan flokksins, eins og Birgir lýsti eftir vistaskiptin.
„Flestir hljóta að vera sammála um að það sé bæði óheiðarlegt og ólýðræðislegt að villa á sér heimildir í kosningum til Alþingis. Ef kjörbréfanefnd og Alþingi sjálft lætur svindl sem þetta óátalið þrátt fyrir heimildir í lögum má reikna með að fleiri slíkar uppákomur eigi sér stað í komandi kosningum. Þetta væri ömurlegt fordæmi og alls ekki til þess fallið að auka tiltrú fólks á störfum Alþingis og leikreglum lýðræðisins,“ segir meðal annars.