„Ljóst er að kjós­endur Mið­flokksins í Suður­kjör­dæmi keyptu köttinn í sekknum,“ segir í kæru sem undir­búnings­nefnd fyrir rann­sókn kjör­bréfa barst á fimmtu­dag. Þar eru gerðar at­huga­semdir við vista­skipti þing­mannsins Birgis Þórarins­sonar úr Mið­flokknum í Sjálf­stæðis­flokkinn.

Sigurður Hreinn Sigurðs­son skrifar undir kæruna en þar er þess krafist að Al­þingi ó­gildi kosningu Birgis og stað­festi ekki kjör­bréf hans. Þess í stað verði lands­kjör­stjórn falið að gefa út kjör­bréf til handa Ernu Bjarna­dóttur, fram­bjóðanda Mið­flokksins í Suður­kjör­dæmi.

Eins og komið hefur fram til­kynnti Birgir tveimur vikum eftir kosningar að hann myndi yfir­gefa Mið­flokkinn og ganga til liðs við þing­flokk Sjálf­stæðis­flokksins. Mið­flokkurinn fékk einn þing­mann kjörinn í kjör­dæminu og út­hlutaði lands­kjör­stjórn kjör­bréfi fyrir Birgi.

Í kæru sinni segir Sigurður að ljóst megi vera að Birgir hafi verið búinn að á­kveða fyrir löngu að hann ætti ekki sam­leið með þeim flokki sem hann var í fram­boði fyrir. sér­stak­lega í ljósi þess sem hann sjálfur hefur lýst sem skipu­legri að­för gegn sér í próf­kjörs­bar­áttunni.

„Hvergi í lögum eða stjórnar­skrá er það heimilað að þing­menn geti flutt með sér þing­sæti frá einum þing­flokki til annars. Þó svo að mörg for­dæmi um slíkt megi finna á liðnum árum hefur það þó ekki gerst án þess að fyrir því liggi mál­efna­legar á­stæður eða á­greiningur. Það sam­ræmist ekki lögum um kosningar til Al­þingis að at­kvæði greitt einum til­teknum flokki eða fram­boðs­lista teljist sem at­kvæði greitt öðrum flokki,“ segir Sigurður í kæru sinni.

Sigurður segir ljóst að kjós­endur Mið­flokksins í Suður­kjör­dæmi hafi keypt köttinn í sekknum þar sem Birgir hafði hvergi látið þess getið í að­draganda kosninganna að unnið væri gegn honum innan flokksins, eins og Birgir lýsti eftir vista­skiptin.

„Flestir hljóta að vera sam­mála um að það sé bæði ó­heiðar­legt og ó­lýð­ræðis­legt að villa á sér heimildir í kosningum til Al­þingis. Ef kjör­bréfa­nefnd og Al­þingi sjálft lætur svindl sem þetta ó­á­talið þrátt fyrir heimildir í lögum má reikna með að fleiri slíkar upp­á­komur eigi sér stað í komandi kosningum. Þetta væri ömur­legt for­dæmi og alls ekki til þess fallið að auka til­trú fólks á störfum Al­þingis og leik­reglum lýð­ræðisins,“ segir meðal annars.