„Umfjöllun um svona mikilvæg mál eins og þetta eigi að heyra undir dómstóka,“ segir Karl Gauti Hjaltason, fyrrverandi alþingismaður, sem kært hefur lögreglustjórann á Vesturlandi til ríkissaksóknara fyrir að fella niður rannsókn á talningarmálinu frá því í alþingiskosningunum í október.

Karl Gauti náði ekki kjöri í kosningum til Alþingis í október síðastliðnum. Hann var einn þeirra frambjóðenda sem á kosninganótt virtust hafa náð þingsæti en misstu það síðan eftir endurtalningu yfirkjörstjórnar á Vesturlandi.

Lögregla rannsakaði meint lögbrot við framkvæmd talningarinnar og lagði sektir á meðlimi yfirkjörstjórnar sem töldu sig ekkert ólögmætt hafa gert og neituðu að borga. Að lokum felldi lögreglustjóri málið niður með vísan í breytingar á kosningalögum sem Alþingi samþykkti í millitíðinni.

Karl Gauti segist kæra þá ákvörðun lögreglustjórans að fella niður málið á hendur yfirkjörstjórninni.

„Í fyrsta lagi þá rökstyður lögreglustjórinn sína niðurfellingu með því að lögin hafi breyst eftir atvikið. Í raun og veru var engin meining með því þegar kosningalögum var breytt að slaka á kröfum um öryggi og vönduð vinnubrögð kjörstjórna, innsiglun kjörgagna og öllu verklagi við kosningar. Það var ekki ætlun löggjafans að slaka neitt á kröfunum heldur þvert á móti að auka þær,“ segir Karl Gauti.

Að sögn Karls Gauta er mælt fyrir um það í hegningarlögum að þegar lagaákvæði breytist en ætlun löggjafans sé augljós eigi að notast við eldri lög. Það eigi einmitt við í þessu tilviki.

„Það kemur bara skýrt fram í greinargerðinni með lögunum að hugmyndin er að auka til dæmis vægi innsiglunar, auka öryggi við alla framkvæmd kosninga og talningar,“ bendir þingmaðurinn fyrrverandi á.

Þá gagnrýnir Karl Gauti að lögreglustjórinn á Vesturlandi hafi beint rannsókn sinni eingöngu að innsiglum kjörgagna. „En í kæru minni nefni ég fjölmörg önnur atriði sem ég taldi að lögreglan ætti að rannsaka en hún virðist ekki hafa gert. Og ég beini því til ríkissaksóknara að láta rannsaka alla þá þætti – eins og til dæmis um umboðsmenn, fundargerðir og viðveru innan um kjörgögn,“ segir hann.

Sem fyrr segir telur Karl Gauti að talningarmálið í Borgarnesi þurfi að bera undir dómstóla. „Það er þeirra að skera úr um refsinæmi brota sem hugsanlega eru framin í kosningum – eins og í þessu tilfelli.“