Fyrrverandi starfsmaður forsetaembættisins hefur kært til lögreglu kynferðislega áreitni af hálfu samstarfsmanns hjá embættinu. Maðurinn hefur leitað aðstoðar hjá Stígamótum. Hann gagnrýnir lausatök innan embættisins þegar vandræðin hófust fyrir mörgum árum.

Maðurinn starfaði fyrir embættið um árabil og bjó á Bessastöðum. Hann kýs nafnleynd að sinni, en segir að framkoma geranda hafi valdið sér og fjölskyldu sinni sársauka og fjárhagstjóni. Hann hafi að lokum hrökklast úr starfi og flutt burt frá Bessastöðum.„Þessi mál hafa tekið gríðarlegan toll,“ segir maðurinn.

Angar málsins eru sagðir teygja sig mörg ár aftur í tímann eða allt til 2015. Mörg dæmi hafi verið um óviðeigandi orð og athafnir en steininn tekið úr í starfsmannaferð til Parísar 2018. Þá þuklaði gerandinn, karlmaður, á manninum og braut á fleirum. Gerandinn fékk skriflega áminningu frá forsetaembættinu, baðst afsökunar og var sendur í tímabundið leyfi. Að hann skyldi fá að snúa aftur til starfa kom þolandanum í opna skjöldu.

Maðurinn telur sig ekki hafa fengið viðeigandi málsmeðferð innan forsetaembættisins. Á hann þar einkum við afgreiðslu fyrrverandi forsetaritara. Þegar hann var orðinn úrkula vonar um raunverulegar úrbætur segist hann hafa sagt upp starfi sínu, leitað til Stígamóta og kært málið til lögreglu. Honum hefur nú verið skipaður réttargæslumaður.

„Í kjölfarið var viðkomandi starfsmanni heimilað að snúa aftur til starfa, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, og var þannig formlegu ferli málsins lokið," segir Sif Gunnarsdóttir, forsetaritari.

Fréttablaðið leitaði viðbragða hjá forsetaembættinu og spurði meðal annars hvort kærði einstaklingurinn væri enn í vinnu hjá embættinu. Því svarar Sif Gunnarsdóttir forsetaritari ekki með beinum hætti en vísar í yfirlýsingu Guðna Th. Jóhannessonar forseta frá október 2019 þar sem segir að þeir aðilar, sem brotið var gegn, hafi verið upplýstir um stöðu og þróun mála og málinu hafi lokið með samþykki allra þeirra aðila sem málið varðaði.

„Í kjölfarið var viðkomandi starfsmanni heimilað að snúa aftur til starfa, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, og var þannig formlegu ferli málsins lokið.Í kjölfar þess að málinu lauk formlega var eigi að síður unnið áfram með fagaðilum og leituðu meðal annars þeir starfsmenn sem um ræðir ráðgjafar og stuðnings á þeim vettvangi,“ segir Sif.

Þá segir forsetaritari um starfsmannamálin að nú standi yfir víðtækar skipulagsbreytingar á Bessastöðum. Markmið þeirra sé að laga starfsmannahald og skipulag vinnu í átt að breyttum aðstæðum og forsendum, sem mótast hafa á undanförnum árum.

„Þessar breytingar munu meðal annars hafa í för með sér að lögð verða niður störf þeirra tveggja starfsmanna sem hafa haft búsetu á Bessastöðum.“