Montia Sabagg, bandarísk fyrirsæta, hefur kært bandaríska leikarann og grínistann Kevin Hart fyrir að hafa tekið mynd­band af því þegar þau sváfu sam­an árið 2017. Hart á að hafa myndað hana á meðan þau stunduðu kynlíf án hennar vitundar. Upptakan rataði síðar á netið og baðst Hart opinberlega afsökunar. Hart hélt fram hjá eiginkonu sinni sem var ólétt á þeim tíma.

Sabagg fer fram á 60 milljón dollara í bætur, sem nemur rúmlega 7 milljörðum króna.

Jonathan Todd Jackson, eigandi vefsíðunnar Fameolous, á að hafa falið myndavél á hótelherbergi í Las Vegas þar sem Hart gisti, en myndbandið birtist síðar á vefsíðunni hans.

Sabagg heldur því fram að Hart hafi skipulagt verknaðinn með Jackson til þess að skapa fjölmiðlafár og vekja athygli á uppistandssýningu sinni, en hann var þá að hefja leikferðalag um Bandaríkin.

Leikarinn hefur alfarið neitað sök og segist ekki hafa vitað af myndavélinni. Hann hefur sjálfur kært Jackson fyrir kúgunartilræði, en hann segir að Jackson hafi reynt að hafa fé af honum með því að hóta því að birta kynlífsmyndbandið.