Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hyggst kæra vegfarandann sem brá fæti fyrir lögregluþjón á harðahlaupum við skyldustörf í gærkvöldi. Talið er að lögreglumaðurinn sé handleggsbrotinn eftir fallið en enn á eftir að fá niðurstöður röntgenmyndatöku frá Landspítalanum.

Handtekinn á vettvangi

„Lögreglumaðurinn var að elta menn í miðbænum þegar brugðið var fyrir hann fæti,“ segir Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Fréttablaðið. Hann segir málið vera litið alvarlegum augum og skilur ekki hvernig fólk geti látið sér detta svona í hug.

Vegfarandinn sem um ræðir var handtekinn á vettvangi í gærkvöldi og rætt við hann. Jóhann segir að tekin verði skýrsla af viðkomandi en honum var sleppt úr haldi í gær.

Aldrei heyrt um annað eins atvik

Á ferli sínum hefur hann aldrei heyrt um að lögreglumaður hafi verið felldur á harðahlaupum við skyldustörf. „Það er nú oft þannig að fólk er að skipta sér að störfum lögreglu en ég man nú ekki eftir því að það hafi verið svona alvarlega áður,“ ítrekar Jóhann.

„Það er oft verið að atast í okkur og fólk að skipta sér að því sem kemur þeim ekki við, en það hefur lengi verið þannig í miðborginni.“ Umrætt mál sé hins vegar brot gegn opinberum starfsmanni og verður það því kært. „Þetta verður ekki liðið.“