Veiðiþjófnaður á landi Seðlabanka Íslands á Suðurlandi var kærður til lögreglu fyrr í vetur. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, var samkvæmt heimildum Fréttablaðsins í hópi þriggja manna sem var staðinn að ólöglegri netalögn. Hann segist ekki hafa lagt neitt net í ána. Málið sé honum óviðkomandi.

Lögreglan á Suðurlandi staðfestir í samtali við Fréttablaðið að kæra hafi borist embættinu vegna ólöglegrar netalagnar í Holtsá sem fellur í Skaftá, þann 24. október.

Lögregla segir rannsókn málsins lokið og ákvörðun um ákæru sé nú í höndum ákærusviðs. Ekki er útilokað að málinu ljúki með sektargerð án þess að fara fyrir dómstóla.

Hópur þriggja manna stóð að netalögninni og hefur Fréttablaðið eftir áreiðanlegum heimildum að Ragnar Þór hafi verið á meðal þeirra. Óheimilt er að leggja net í ána.

Ragnar Þór segist ekki hafa verið kærður og tekur fram að málið tengist honum ekki. „Þetta mál tengist mér ekki heldur snýst það um deilur landeigenda á þessu svæði, að ég best veit,“ segir Ragnar í samtali við Fréttablaðið. Spurður hvort hann hafi verið einn af þeim sem lagði net í ána svarar Ragnar neitandi. „Ég lagði ekki nein net þarna, mér finnst með algjörum ólíkindum að það sé verið að draga mig inn í mál sem er mér óviðkomandi.“

Atvikið átti sér stað í Holtsdal, sem er stórt landsvæði, alls 917 hektarar, í Holti í Vestur-Skaftafellssýslu og er í eigu Seðlabanka Íslands. Því fylgir veiðiréttur í Holtsá, sem rennur um dalinn, og þar standa tveir bústaðir í eigu bankans.

Veiðiþjófnaðurinn mun hafa verið kærður af bónda frá nálægum bæ sem kom að netalögninni, fjarlægði netið og tilkynnti atvikið til lögreglu. Þá urðu gestir í öðrum bústað Seðlabankans einnig varir við netalögnina.

Holtsá er efsta þverá Skaftár sem fiskur, einkum sjóbirtingur, gengur að jafnaði í frá sjó. Seðlabankinn keypti landsvæðið árið 1991 – átti fyrir litla spildu þar sem bústaðirnir standa – en megintilgangur landkaupanna var sá að hefja stórfellda skógrækt.