Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur þeim Ragnheiði Freyju Kristínardóttur og Jórunni Eddu Helgadóttur fyrir að mótmæla brottvísun nígeríska flóttamannsins Eze Okafor um borð í flugvél Icelandair fyrir rúmu tveimur og hálfu ári. 

Stóðu upp og kölluðu á farþega 

Eze hafi verið neitað um alþjóðlega vernd hér á landi og stóð til að vísa honum úr landi til Svíþjóðar í fylgd lögreglu. Þegar um borð í vélina var komið stóðu Ragnheiður og Jórunn upp og tilkynntu farþegum að verið væri að flytja Okafor ólöglega úr landi. Þá hvöttu þær aðra farþega til að gera slíkt hið sama. Voru þær í kjölfarið handteknar og færðar á brott með lögreglu. Ragneiður og Jórunn tjáðu sig um atvikið í viðtali við Stundina þar sem þær segjast hafa verið í haldi lögreglu í sjö klukkutíma. 

Með hátterni kvennana telur saksóknari að þær Ragnheiður og Jórunn hafi reynt að tálma lögreglumenn við skyldustörf, raska öryggi flugvélarinnar og óhlýðnast fyrirmælum áhafnarinnar í vélinni. Myndskeið af mótmælunum var birt á Facecook-síðu samtakanna No Borders Iceland og má sjá hér:

Töldu lífi hans og öryggi í hættu

Nokkuð fjölmennur hópur var viðstaddur þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur klukkan tvö í dag. Við þingfestinguna neituðu bæði Ragnheiður og Jórunn sök og í samtali við Fréttablaðið segja þær að það hafi verið hverjum manni ljóst hvers vegna þær voru í vélinni umræddan dag. 

„Við vorum að láta fólk í vélinni vita að um borð sé maður sem verið er að brottvísa áleiðis til heimalands síns og þess vegna sé öryggi hans og lífi stofnað í hættu,“ segja þær og bæta við:    

„Í þessu tilviki var þetta neyðarúrræði til þess að reyna að ná fram réttlæti í málinu. Brottvísanir á borð við þessa eiga sér stað oft í viku.“

Tvö og hálft ár frá atviki til ákæru

Atvikið átti sér stað í maí 2016 og liðu því um tvö og hálft ár þar til kæran var birt. Rétt er að árétta að það er ekki flugfélagið sem leggur fram kæru á hendur Ragnheiði og Jórunni, heldur er það héraðssaksókari. 

Konurnar segjast hafa verið nokkuð hissa þegar þeim var afhent kæra að svo löngum tíma liðnum en bæta við: 

„En, ef ákæran kemur okkur á óvart tveimur og hálfu ári síðar, getur maður rétt svo ímyndað sér flóttafólki líður sem þarf að bíða í fjölda ára eftir niðurstöðu í sinna mála.“

Sama dag og þeim Jórunni og Ragnheiði var birt kæra af hendi héraðssaksóknara kærðu Svíar þarlenda konu, Elínu Ersson, fyrir sambærilegt brot sem átti sér stað í sumar. Þar hafði hún kyrrsett flugvél með því að neita fá sér sæti í flugvél til þess að hindra brottvísun afgangs flóttamanns. 

„Farþegar, lögreglan og Útlendingastofnun héldu óskrámuð áfram með líf sitt“

Samtökin No Borders birtu fyrir stuttu færslu á Facebook-síðu sinni um málið þar sem ákvörðun héraðssaksóknara er harðlega gagnrýnd. 

„Saksóknari hefur nú ákveðið að ákæra konurnar fyrir að ógna öryggi flugvélar -- sem stóð með opnar dyr við Leifsstöð -- fyrir að reyna að upplýsa farþega um þessar aðstæður, og hætta því ekki þegar reynt var að þagga niður í þeim. Það voru ekki þær sem ógnuðu öryggi farþega, heldur aðgerðir lögreglunnar,“ segir í færslunni. 

„Útlendingastofnun, sem reyndi að senda manninn í fang dauðans, hefur ekki verið kærð, ekkert frekar en lögreglumennirnir sem lömdu flóttamanninum í jörðina þegar hann fékk áfall í flugstöðinni. Farþegar, lögreglan og Útlendingastofnun héldu óskrámuð áfram með líf sitt og störf eftir brottvísunina. Flóttamaðurinn og konurnar tvær, sem fóru öll særð úr flugvélinni, hafa nú verið gerð að bæði fórnarlömbum og sökudólgum.

Það þótti fréttnæmt þegar Útlendingastofnun tók fyrir það að hælisleitendur mættu bjóða fólki í heimsókn til sín. Það þótti fréttnæmt þegar Útlendingastofnun reyndi að tálma alvarlega veikum flóttamönnum sem vildu komast á spítala. Það hefur komist í alþjóðlegar fréttir að áhafnir björgunarbáta, hjálparstarfsmenn og almennir borgarar hafa verið handtekin og ákærð fyrir að bjarga drukknandi fólki úr sjó í Miðjarðarhafinu undanfarna mánuði, og björgunarskip kyrrsett,“ segir jafnframt í færslunni sem má lesa hér að ofan.