„Við erum bara að láta skoða þetta og reyna að átta okkur á því hvernig þetta er vaxið. En þetta kemur okkur mjög á óvart,“ segir Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi VesturVerks, í samtali við Fréttablaðið og á þá við kæruna sem meirihluti landeigenda Drangavíkur lagði fram í gær. Árneshreppur hefur veitt VesturVerki leyfi til að hefja framkvæmdir á Hvalárvirkjun en landeigendurnir telja aðilana hafa stuðst við röng landamerki þegar verkið var skoðað.

Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi VesturVerks.

Hafa miklu að tapa

Með kærunni, sem lögð var fram í gær til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála (ÚUA), fara landeigendur þannig fram á að framkvæmdunum verði afstýrt og að yfirvofandi framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið sé tekið fyrir. „Ef að nefndin fellst á þetta er fyrirsjáanlegt að verulegar tafir verða á verkefninu og það verður auðvitað mjög kostnaðarsamt fyrir okkur,“ heldur Birna áfram.

Ljóst er að VesturVerk tapi talsverðum fjárhæðum verði ÚUA við kröfu landeigenda.

VesturVerk hefur nú þegar eytt hundruðum milljóna í verkefnið en þrettán ár eru síðan aðstandendur VesturVerks fóru af stað með málið. „Og það hefur aldrei neinn bent á þessi landamerki fyrr. Aldrei í öllu ferlinu sem nú er orðið ansi langt,“ segir Birna en eins og Fréttablaðið greindi frá í gær byggja landeigendurnir kæruna á landamerkjaskrá frá árinu 1890 sem þeir segja sýna rétt og þinglýst landamerki.

Skrýtið að landeigendur hafi ekki stigið fram fyrr

„Þannig þetta er bæði að koma okkur mjög á óvart og held ég sveitarfélaginu líka; við fengum bara fréttir af þessu í gær eins og aðrir. Verkefnið var komið inn í rammaáætlun og við höfum unnið þetta allt í mjög góðri trú um að allt væri að fara fram með réttum hætti. Nú þurfum við bara að fá aðeins lengri tíma til að fara alveg ofan í kjölinn á þessu máli,“ segir Birna að lokum.

Þá segir í yfirlýsingu frá VesturVerki sem fyrirtækið sendi frá sér rétt fyrir klukkan 11 í dag, eftir að Fréttablaðið ræddi við Birnu: „Það sætir furðu að í undirbúnings- og skipulagsferli vegna Hvalárvirkjunar, sem spannar á annan áratug, skuli landeigendur ekki fyrr hafa vakið máls á meintu misræmi í landamerkjaskráningu. Einnig mætti ætla að opinberar eftirlitsstofnanir hefðu bent á slíkt misræmi, sé það fyrir hendi.“

Rósbjörg Jónsdóttir, formaður Landverndar.

Landvernd verði að gæta sín

Aðstandendur VesturVerks eru því ósáttir með aðferðir landeigenda við kæruna en þar að auki brást fyrirtækið við tilkynningu Landverndar sem birtist í gær í kjölfar kærunnar. Þá sagði Landvernd framkvæmdirnar fjárhagslega óábyrgar og að aðstandendur og stuðningsmenn hennar virtu lög og reglur að vettugi.

Í tilkynningu VesturVerks segir þannig að Landvernd séu samtök sem að hluta til séu rekin af opinberu fé. Þau verði því að gæta hófstillingar og virða sannleiksgildi í málflutningi:

„Fyrir utan dylgjur um arðsemi verkefnisins, sem Landvernd hefur engar forsendur til að leggja mat á, er fyrirtækið VesturVerk sakað um að hafa gerst brotlegt við lög og reglur í landinu. Það eru alvarlegar ásakanir. Landvernd hlýtur að þurfa að færa rök fyrir máli sínu og tiltaka hvaða lög, reglur eða faglegir ferlar hafa verið virtir að vettugi í undirbúningi að virkjun Hvalár.“