Þau Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason, þingmenn Miðflokksins, hafa kært úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur.

Dómurinn hafnaði í vikunni beiðni þeirra um að fram færu vitnaleiðslur og öflun sýnilegra sönnunargagna í tengslum við Klaustursmálið. Krafa þingmannanna snérist helst að því að komast að því hver hafði tekið upp samtal þeirra og hvernig atvikum hafði verið háttað í kringum það. 

Stundin greinir frá, en  þingmennirnir gera þá kröfu að úrskurður héraðsdóms verði felldur úr gildi þar sem þau telji forsendur dómsins fái ekki staðist.

Þingmenn óskuðu eftir myndefni úr eftirlitsmyndavélum við Klaustur og Alþingi, sem þeir telja að muni upplýsa um málsatvik þann 20. nóvember.

Í umræddri kæru er Bára sögð hafa „sperrt eyrun“ og „þóttist“ lesa ferðamannabækling. Af þessu er dregin ályktun um einbeittan ásetning Báru í málinu.

„Allt þetta gefur til kynna að þegar varnaraðili kom á Klaustur hafi hún komið þangað með það fyrirframgefna markmið að njósna um og taka upp samtöl sóknaraðila. Hún hafi gengið fumlaust til verka,“ segir í kærunni. Er hún sökuð um að hafa haft meðferðis bæklinga sem hún „notaði sem yfirvarp og búnað sem hentaði til verksins.Þá hafi hún dvalið á staðnum svo lengi sem í fjórar klukkustundir. Hafi hún þó sagst hafa verið á leiðinni á æfingu á leiksýningu sem ætlunin var að frumsýna tveimur dögum síðar, án þess að þetta hafi neitt tálmað þaulsetu hennar yfir upptökunum.“