Samtökin Réttur barna á flótta hyggjast kæra ríkislögreglustjóra, Útlendingastofnun og Heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu fyrir mannréttindabrot sem þau telja hafa verið framin í máli barnshafandi albönsku konunnar sem vísað var úr landi. Greint var frá þessu í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Samtökin Réttur barna á flótta hyggjast höfða mál gegn íslenskum stjórnvöldum vegna meintra vegna mannréttindabrota sem þau telja að framin hafi verið á konunni. Lögmannsstofan Réttur hefur tekið að sér málið.
Elínborg Harpa Önundardóttir, baráttukona og einn talsmaður samtakanna No Borders, segir í samtali við Stöð 2 að albanska konan sé að flakka á milli vina og vandamanna í heimalandi sínu ásamt fjölskyldu sinni „til að koma sér undan þeirri hættu sem blasti við þeim áður en þau komu hingað."
Óléttar konur, konur og aðrir mótmæltu brottvísun fjölskyldunnar í dómsmálaráðuneytinu.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra var ekki viðstödd til að taka við kröfum hópsins sem stóð að mótmælunum.
„Síendurtekið er ómannúðlegum vinnubrögðum Útlendingastofnunar í einstaka málum hælisleitenda mótmælt. Hingað til hafa slík mótmæli og vilji almennings ekki leitt til endurskoðunar á reglum og framkvæmd laganna. Börn eru send úr landi um miðja nótt. Fólki með lítil börn er ítrekað tilkynnt um yfirvofandi brottvísun eftir lokun stofnana, sem gerir því ómögulegt að gera nokkuð til að koma í veg fyrir hana og nú er óléttri konu vísað úr landi þrátt fyrir að heilsufar leyfi það ekki,“ sagði Salvör Gullbrá, skipuleggjandi mótmælanna, í ávarpi sínu en hún er sjálf ólétt og er um hálfnuð með sína meðgöngu.