Krotað var yfir regn­boga­fánann á gang­stéttinni fyrir framan Grafar­vogs­kirkju í annað skipti á þremur dögum á mánu­daginn. Í fyrra skipti var þar ritað „Antichrist!“ og í hið seinna „Leviticus 20, 20:13.“ Í bæði skiptin virðist vera um að ræða haturs­skila­boð gegn stuðningi kirkjunnar við réttindi hin­segin fólks.

Guð­rún Karls Helgu­dóttir, sóknar­prestur í Grafar­vogs­kirkju, segir að skemmdar­verkið hafi verið til­kynnt til lög­reglu. „Ég gerði það ekki eftir fyrra skiptið, þá á­kváðum við að gefa þessu séns. En núna hefur þetta verið til­kynnt.“

Þegar fáninn var málaður á gang­stéttina voru við­tökurnar að sögn Guð­rúnar afar já­kvæðar. Eftir að kirkjan birti myndir af skemmdar­verkinu á Face­book-síðu sinni segir Guð­rún þó að ýmsir hafi lagt orð í belg með sjónar­mið af ýmsum toga.

„Það hefur verið heil­mikil um­ræða á Face­book-síðunni þar sem eru skoðanir í fleiri áttir,“ segir Guð­rún. „Svo hringdi ein í gær og kvartaði yfir fánanum og fannst hann alveg ó­mögu­legur. Það eru að­eins fleiri að koma fram, þau sem eru ekki á­nægð með að kirkjan taki þessa af­stöðu.“

Versið sem vitnað er til í seinna krotinu er að finna í þriðju Móse­bók Gamla testa­mentisins. Í því er lögð dauða­refsing við kyn­mökum milli tveggja karl­manna. Gjarnan hefur verið vísað til versins til að mæla gegn réttindum sam­kyn­hneigðra á trúar­legum grund­velli en Guð­rún telur það ekki rök­rétta túlkun á kristinni trú.

„Það að taka þetta vers úr sínu sam­hengi til að styðja mál­stað gegn hin­segin fólki lýsir í mínum huga ein­hverju öðru en kær­leiks­ríkri trú,“ segir Guð­rún. „Við­komandi hefði alveg eins getað tekið út úr sama texta­bálki að það eigi að líf­láta fólk fyrir að bölva for­eldrum sínum, eða að ef karl sefur hjá konu á blæðingum eigi að líf­láta þau bæði. Það er ýmis svona boð­skapur í Biblíunni og hann hefur sínar sögu­legu skýringar, en þessi texti er til kominn um það bil 250 árum fyrir Krist. Það er talið mjög lík­legt að með þessum texta­bút hafi verið að gagn­rýna þjóðir þarna í kring þar sem það við­gekkst að karlar væru að mis­nota unga drengi.“

Grafar­vogs­kirkja er ekki eini staðurinn á Ís­landi þar sem kirkjunnar fólk hefur orðið fyrir að­kasti vegna stuðnings síns við réttindi hin­segin fólks að undan­förnu. Pétur G. Markan biskups­ritari og Margrét Lilja Vil­mundar­dóttir prestur fengu á föstu­daginn nafn­laust haturs­bréf inn um lúguna þar sem þau voru kölluð „krípí fólk“ með „úr­kynjaða hegðun“.

Guð­rún segist ekki vita hvort haturs­bréfið tengist skemmdar­verkunum við Grafar­vogs­kirkju beint en segir það vafa­laust tengjast ó­beint. „Þetta er af sama meiði, að fólk er ó­sátt við að kirkjunnar fólk styðji réttindi hin­segin fólks. Við vitum að það er mikið af öfga­trúar­hópum sem eru á móti hin­segin fólki. Í mínum huga er þetta ekki úr kristninni komið. Þetta snýst frekar um að pakka hatri í um­búðir trúar. En hvatinn sé ein­hver annar en heit trú.“

Búið er að koma mynda­vél fyrir við gang­stéttina fyrir framan Grafar­vogs­kirkju, þar sem málað hefur verið yfir krotið. „Ef við finnum út hver þetta var er við­komandi hjartan­lega vel­kominn í kaffi til okkar,“ segir Guð­rún.