Samtökin Jarðarvinir hafa lagt inn kæru til Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu vegna blóðtöku úr fylfullum merum, en forsvarsmenn samtakanna telja framkvæmd hennar í atvinnu- og auðgunarskyni fara í bága við landslög.

Kæran beinist gegn Matvælastofnun, sem veitt hefur opinbert leyfi til blóðmerahalds, en jafnframt gegn Fagráði um velferð dýra sem lagt hefur blessun sína yfir blóðtökuna og Ísteka, fyrirtækisins sem annast hefur framkvæmd hennar.

Fréttablaðið greindi frá því á dögunum að þær breytingar sem gerðar voru á dýraverndarlögum 2013 og á reglugerð um hestahald ári seinna virðast ótvírætt benda til þess að Matvælastofnun hafi ekki lengur heimild til að endurnýja leyfi Ísteka til blóðtökunnar. Hvorki megi lengur framleiða lyf úr lifandi dýrum né gera aðgerðir á hestum nema í vísindalegum tilgangi. Síðasta leyfi Ísteka til blóðtökunnar hafi runnið út 2020 „og enginn vafi leikur á að blóðtakan er óleyfileg frá þeim tíma,“ eins og Björn M. Sigurjónsson, lektor við Dania-háskólann á Jótlandi komst að orði í fréttinni.

Ole Anton Bieltvedt, formaður Jarðarvina segir í kærunni að jafnframt sé líklegt að blóðtakan hér á landi brjóti í bága við ESB-löggjöf um dýravernd, en blóðtaka sé hvergi leyfð í Evrópu nema á Íslandi.

Í kærunni er refsingar krafist vegna ítrekaðra og viðvarandi brota á nýju dýraverndarlögunum, en stutt sé í það að sú meinta ólöglega starfsemi sem kæran varði fari aftur fram, verði hún ekki stöðvuð. „Bið ég þig því í allri vinsemd að hraða meðferð málsins eftir fremstu föngum, svo að ekki komi til framhalds þessarar meintu ólöglegu starfsemi og framhalds brota,“ segir Ole Anton í aðsendri kæru til Huldu Elsu Björgvinsdóttur, sviðsstjóra ákærusviðs.