Útgerðaraðilar á Ísafirði telja að stjórnsýslulög hafi verið brotin við afgreiðslu byggðakvóta hjá Ísafjarðarbæ og að umsagnir hafi ekki verið teknar til efnislegrar umfjöllunar.

Þá telja umræddir aðilar að bæjarstjóri sé vanhæfur til umfjöllunar um málið vegna hagsmunatengsla sem og fleiri í bæjarstjórn.

„Þetta kemur mér á óvart og ég tel að stór hluti þessarar kæru sé byggður á misskilningi. Þessar umsagnir sem þeir gera athugasemdir við, fengu svo sannarlega umfjöllun,“ segir Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, spurð hvort kæran hafi komið henni á óvart.

Í stjórnsýslukærunni kemur fram að málinu hafi verið komið að á fundi bæjarstjórnar að kvöldi til þann 3. janúar síðastliðinn og aðeins fengið þrjár mínútur í málsmeðferð þar sem eingöngu Arna Lára hafi tekið til máls.

Í kærunni er fullyrt að það hafi ekki verið hægt að sjá að málið hefði farið í tvær umræður líkt og gerð sé krafa um samkvæmt sveitarstjórnarlögum né fylgigögn lögð fyrir bæjarráð eða bæjarstjórn um þær sjö umsagnir sem bárust um málið. Því sé ekki hægt að álykta að bæjarstjórn hafi tekið upplýsta ákvörðun heldur hafi einhliða tillaga bæjarstjóra verið samþykkt.

„Þetta mál fékk efnislega umræðu. Við héldum undirbúningsfund fyrir bæjarstjórnarfundinn þar sem við ræddum þessar athugasemdir sérstaklega. Okkur bar ekki skylda til að auglýsa en við auglýstum eftir athugasemdum íbúa og fengum sjö athugasemdir sem fengu efnislega umræðu.“

Þar að auki er fullyrt í kærunni að þarna sé um hagsmunaárekstur að ræða þar sem Ísafjarðarbær hafi hagsmuna að gæta í að halda reglunum óbreyttum því Ísafjarðarbær eigi eignarhlut í þremur útgerðarfélögum í gegnum Hvetjanda og stjórnarformaður félagsins sé bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.

„Það er sérkennilegt, því ég hef engra persónulegra hagsmuna að gæta í málinu. Ég sit í stjórn Hvetjanda fyrir hönd Ísafjarðarbæjar og hef engra persónulegra hagsmuna að gæta,“ segir Arna sem á von á því að úrskurðað verði Ísafjarðarbæ í hag.

„Ég geri ekki ráð fyrir öðru, annað væri afar sérkennilegt,“ segir Arna Lára.