Kennari og þrír starfsmenn grunnskóla, sem kærðir hafa verið til lögreglu vegna innilokunar barns, starfa við skóla í Hafnarfirði. Fréttablaðið greindi fyrst frá málinu í byrjun mánaðarins en ekki í hvaða sveitarfélagi sá grunnskóli sem um ræðir er.

Upplýsingafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar hafði ekki heyrt um málið þegar Fréttablaðið leitaði svara og kvaðst þurfa að leita viðbragða hjá sviðsstjórum og lögfræðingum sveitarfélagsins.

„Sveitarfélagið fékk fyrst upplýsingar um kæru til lögreglu í dag. Málið er því í rannsókn á þeim vettvangi og tjáir sveitarfélagið sig ekki um það frekar á þessu stigi,“ segir í svari bæjarins við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Verkefni á vegum Hafnarfjarðar var á dögunum tilnefnt til hvatningarverðlauna í alþjóðlegri keppni á vegum UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, en UNICEF, á alþjóðavísu, hefur nú verið tilkynnt um kærurnar.

Verkefnið sem var tilnefnt kallast Brúin og tekur þátt í keppninni í flokki um barnvæna félagsþjónustu samkvæmt vef Hafnarfjarðarbæjar, en tilgangur verkefnisins er að samþætta þjónustu bæjarins og efla stuðning og þjónustu við börn í leik- og grunnskólum bæjarins.

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, segir að hún viti ekki hvort þessar upplýsingar hafi áhrif á verðlauna­afhendinguna en að UNICEF erlendis hafi verið tilkynnt um kærurnar.

Málið sé í skoðun hjá samtökunum og Hafnarfjarðarbæ hafi verið tilkynnt um það. „Við fáum að vita að málið snerti Hafnarfjarðarbæ þegar tilkynnt er um tilnefningarnar. „Við erum í samtali við bæði aðstandendur keppninnar, sem er UNICEF úti í heimi, og við Hafnarfjarðarbæ og erum í góðu samtali við báða aðila,“ segir Birna

Hún vill taka fram að þrátt fyrir þetta styðji UNICEF heilshugar við verkefnið sem er tilnefnt.

„UNICEF á Íslandi styður heilshugar markmið Brúarinnar, en það er verklagið þar sem er tilnefnt til verðlaunanna, vegna þess að það snýr að því að brjóta kerfi út úr sílóum í þágu hagsmuna barnsins.“

Birna segir að Hafnarfjörður sé að vinna sig í áttina að því að verða barnvænt sveitarfélag.

„Þetta er viljayfirlýsing, að fara í þetta verkefni með okkur, og þá ertu að segja að þú viljir vinna að réttindum barna í sveitarfélaginu og þú útskrifast ekki sama dag og þú skrifar undir viljayfirlýsinguna,“ segir Birna. UNICEF líti svo á að ef og þegar mál komi upp, skipti mestu að dreginn sé uppbyggilegur lærdómur af þeim og tryggt að þau endurtaki sig ekki.

„Í þessu ákveðna tilviki eru réttindi barnsins þverbrotin og þarna hefði réttindafræðsla sannarlega komið að gagni. Við teljum jákvætt að vera í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ í því að breyta og bæta starfshætti hjá bænum svo að bæði allt starfsfólk sem starfar með börnum fái fræðslu og að ákvarðanir sem varða börn séu alltaf teknar með hagsmuni þeirra að leiðarljósi,“ segir Birna.

Aðspurð segir hún að sveitarfélagið hafi ekki tilkynnt UNICEF á Íslandi um kæruna og segist ekki geta lagt mat á hvort það hefði átt að gera það.

„Ég held að þetta undirstriki svo ekki verði um villst mikilvægi akkúrat þeirrar vinnu sem við erum í. Þú getur varla fengið skýrara dæmi um mikilvægi þess að fólk sem vinnur með börnum fái fræðslu um þeirra réttindi,“ segir Birna um áhrif málsins á tilnefninguna og bætir við: „Verkefnið Barnvæn sveitarfélög gefur okkur frábært tækifæri til að vinna með Hafnarfjarðarbæ á uppbyggilegan hátt að réttindum barna.“

Birna játar því að innilokanir barna og valdbeiting gegn þeim, sem fjallað hafi verið um nýverið, hafi verið rædd á skrifstofu UNICEF.

„Þetta eru auðvitað sorgleg dæmi um réttindabrot á börnum sem við viljum ekki sjá. En tvíeflir okkur í vinnunni sem við erum í með fjölda sveitarfélaga og skóla, því við erum líka með verkefnið Réttindaskólar, sem snýst um að innleiða Barnasáttmálann í starfshætti skóla.“