Samtök iðnaðarins hafa kært auglýsingaskrifstofuna Brandenburg til siðanefndar íslenskra auglýsingaskrifstofa (SÍA) vegna auglýsinga sem gerðar voru fyrir Nova. Fréttablaðið hefur kæruna undir höndum.

Auglýsingarnar bera yfirskriftina SjálfsVörn, en þær fjalla um Stéttarfélag innbrotsþjófa. Um er að ræða skáldað fyrirbæri sem í auglýsingunum berst fyrir réttindum innbrotsþjófa, líkt og nafnið gefur til kynna.

Það sem fer fyrir brjóstið á Samtökum iðnaðarins er að Stéttarfélag innbrotsþjófa hefur sömu skammstöfun, SI, en í lögum samtakanna kemur fram að það sé skammstöfun þeirra. Og þá þykir merki sem birtist í auglýsingunum svipa mjög til merkis samtakanna. Þess má geta að merkinu í auglýsingaherferðinni hefur nú verið breytt.

Hér má sjá merkin tvö. Til hægri: Samtök iðnaðirns, og til vinstri: Stéttarfélag innbrotsþjófa
Fréttablaðið/Samsett

Telja auglýsingarnar hvetja til ofbeldis og ólöglegs atferlis

Í kærunni kemur fram að kært sé fyrir brot á níu siðareglum SÍA. Til að mynda er bent á fyrsta ákveði siðareglanna, en í því segir að allar auglýsingar eigi að vera lögum samkvæmt, sæmandi, heiðarlegar og segja sannleikann.

„Ljóst er að umræddar auglýsingar standast engan veginn kröfur ákvæðisins enda fela þær í sér lögbrot, þar sem með grófum hætti er brotið gegn réttindum kærenda. Enn fremur tengja þær starfsemi kærenda með ósæmandi hætti við starfsemi glæpamanna og skapa þannig hugrenningatengsl við óheiðarleika og skipulagða glæpastarfsemi.“ segir í kærunni, en þar er því jafnframt haldið fram ætlun auglýsingaherferðarinnar virðist vera að vega að orðspori Samtaka iðnaðarins.

Samkvæmt kærunni má túlka auglýsingar Nova þannig að þær séu að „leggja blessun sína yfir ofbeldi og ólöglegt atferli eða hið minnsta hvetja til þess,“ Þess til rökstuðnings er bent á að á heimasíðu herferðarinnar sé tengill á vefsvæði VR, og bent á að þar megi finna orlofshús sem eru auð og yfirgefin, þá eflaust til innbrota. Þá segir að á heimasíðu herferðarinnar sé hvergi augljós skírskotun sem vísi til þess að um auglýsingu sé að ræða.

Óviðeigandi fyrir börn

Þá er sérstaklega gagnrýnt að auglýsingin hafi verið sérstaklega áberandi í sjónvarpinu í kringum Eurovision, þar sem börn eru stór áhorfendahópur. Bent er á að í siðareglum SÍA sé bent á að sérstaka aðgát skuli hafa í auglýsingum sem beinast að börnum eða unglingum.

„Eiga auglýsingar ekki að ganga gegn jákvæðri félagslegri hegðun, lífsstíl og viðhorfum. Kærandi telur að þess hafi ekki verið gætt enda ljóst að að umræddar auglýsingar fjalla sérstaklega um brotastarfsemi sem gengur ekki bara gegn jákvæðri félagslegri hegðun heldur vísar til hegðunar sem felur í sér lögbrot.“ segir í kærunni.