Bæjarráð Akraneskaupstaðar hefur falið bæjarstjóra að kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar um að breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Í fundargerð bæjarráðs segir að framkvæmdin hafi afar jákvæð samfélagsleg áhrif vegna bætts umferðaröryggis. Vegfarendum sé boðið upp á lífshættulegar aðstæður á umræddu svæði.

„Akranes og íbúar þess hafa lögvarinna hagsmuna að gæta þegar kemur að umferðaröryggi íbúa og að framkvæmdinni sé hraðað en Akraneskaupstað er umhugað um að ekki verði fleiri slys á umræddri leið,“ segir í fundargerðinni.

Bæjarráðið segir ákvörðun Skipulagsstofnunar byggjast á röngum forsendum. Ekki sé um nýjan veg að ræða heldur breikkun vegarins í 2 plús 1 veg ásamt hliðarvegum, hringtorgum og göngu-, hjóla- og reiðstígum. Það land sem raskist við framkvæmdina sé nú þegar raskað. Ákvörðun Skipulagsstofnunar byggist á langsótti lögskýringu. Því beri að ógilda ákvörðunina.–