„Ég viðurkenni það að þetta var ansi stór dagur. Að hitta Zelenskíj og fá beint frá honum hans mat og að eiga við hann óformlegt og yfirvegað samtal sem einnig var vinalegt þrátt fyrir að vera um mjög alvarlega hluti,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð en hún er nú Kænugarði í sameiginlegri heimsókn utanríkisráðuneyta Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna.

„Það er gott að finna að hann eins og aðrir sem ég hef hitt frá Úkraínskum stjórnvöldum er meðvitaður um hvað við erum að gera eins og aðrir og þakkar fyrir það en segir líka alveg skýrt hvað það er sem þarf,“ segir Þórdís Kolbrún um þó upplifun að ræða við forseta Úkraínu.

Þórdís Kolbrún segir það mikilvægt að sjá með eigin augum þær aðstæður sem skapast hafa í Úkraínu.
Mynd/Stjórnarráðið

Ljúfsárt að sjá aðstæður í Úkraínu

Þórdís segir það ljúfsára reynslu að sjá aðstæður í landinu „Við komum hingað eftir langt ferðalag, eldsnemma í morgun og fyrir mér var töluverð upplifun bæði að sjá að borgin beri þess merki að það sé stríð en hún ber það einnig með sér að fólk er að reyna að lifa eðlilegu lífi,“ segir Þórdís Kolbrún og bætir við „ég er að koma til Kænugarðs í fyrsta skipti og það er jólalegt hérna. Það er snjór og það er kalt. Þannig koma fram mjög blendnar tilfinningar og ef ég á að vera alveg heiðarleg þá var þetta dálítið ljúfsárt,“ segir Þórdís sem segir að fyrir henni sé það alveg skýrt hvert hlutverk Íslands er í stríðinu.

„Það er að standa með Úkraínumönnum eins lengi og þurfa þykir. Leita allra leiða til þess að gera gagn og hlusta eftir því sem þau eru að kalla eftir. Eins og ég hef áður sagt að þá er ekki alltaf nóg að gera sitt besta, stundum þarf að gera það sem er krafist,“ segir Þórdís Kolbrún sem segir það gott að geta farið yfir þann stuðning sem Ísland hefur veitt.

„Við höfum ákveðnu hlutverki að gegna þrátt fyrir að í þessum hópi séum við eina þjóðin sem er ekki með her og ekki að framleiða vopn. Þá er einnig gott að geta farið yfir þann stuðning sem við höfum veitt en það er líka klárt loforð af minni hálfu, af hálfu ríkisstjórnarinnar og fyrir hönd Íslensku þjóðarinnar að við stöndum með Úkraínsku þjóðinni,“ segir Þórdís Kolbrún.

Upplifun að hitta Zelenskíj

Þórdís Kolbrún segir að fundur hennar með Zelenskíj í dag hafi verið mjög góður en hún segir að samtal þeirra hafi verið bæði vinalegt en þó yfirvegað og formlegt.

„Fundurinn í dag var mjög góður og þótt umræðuefnið hafi verið alvarlegt þá var þetta allt á óformlegum og vinalegum nótum. Þetta var yfirvegað, formleg, vinalegt spjall þar sem hægt var að byrja að eiga samtöl um allskonar hluti. Bæði hvað Úkraínu vantar en einnig hverjar áskoranir þeirra eru til skemmri tíma en líka bara hvert hið pólitíska landslag er í landinu og stöðuna almennt,“ segir Þórdís Kolbrún sem segir að Zelenskíj hafi verið skýr í máli sínu um aðstæður Úkraínu. „Ég var mjög þakklát að fá loksins tækifæri til þess að setjast niður með honum og eiga þetta samtal.“

Ráðherrar lögðu leið sína að minnisvarða um þjóðarmorðið sem kallað er "Holodomor" sem Rússar frömdu í Úkraínu með því að framkalla hungursneyð.
Mynd/Stjórnarráðið

Var meðvituð um áhættuna

Aðspurð um það hvort ekki hafi reynst erfitt að fara inn á stríðssvæði og hvort hún hafi upplifað óöryggi segir hún svo ekki vera.

„Ég áttaði mig auðvitað á því að ég er að fara inn í aðstæður þar sem enginn er í raun öruggur og við vorum að heimsækja staði sem eru augljós skotmörk Rússa. En mér leið aldrei illa, bæði vegna þess að við vorum með mikla gæslu. Í rauninni eins mikla og hægt er að hafa þannig að og það var ekkert meira sem ég gat gert í því. Það sem ég gat gert í þessum aðstæðum var að fylgja reglum og það hvarflaði aldrei að mér annað en að fara hingað,“ segir Þórdís Kolbrún um upplifun sína.

Hún segir að heimsóknin hafi klárlega styrkt sannfæringu hennar um það að áframhaldandi stuðningur við Úkraínu sé nauðsynlegur.

„Þetta hefur gert það. Vissulega hefur það áhrif að mæta og sjá þetta með berum augum. En líka að hitta þessa kollega og félaga sem ég hef áður hitt sem eru hluti af Úkraínskum stjórnvöldum en að hitta þau í sínu landi og að hitta þau innan sinna ráðuneyta, það situr eftir. Hafi ég getað haft frekari sannfæringu fyrir því hver rétti málstaðurinn er þá má segja að dagurinn hafi gert það að verkum,“ segir Þórdís Kolbrún að lokum.