Ekki hefur verið gefin út ákæra í hryðjuverkamálinu, en gæsluvarðhald á að renna út þann 8. desember. Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður annars sakborningsins segir að það myndi sæta furðu ef gefin verði út ákæra fyrir tilraun til hryðjuverka.
Í síðustu viku sagði héraðssaksóknari að rannsókn málsins væri lokið. Málið er nú hjá saksóknara sem mun taka afstöðu til þess hvort mennirnir verði ákærðir.
Sveinn segir að hann hafi ekkert heyrt frá ákæruvaldinu um ákæru í málinu. Hann segir að mögulega verði gæsluvarðhaldið framlengt.
„Þeir gætu haft þá inni til fjórtánda desember, þá eru tólf vikur liðnar. Þeir þurfa að gefa út ákæru fyrir tólftu vikuna, svo gætu þeir mögulega framlengt gæsluvarðhaldið ef ákæran er þess efnis,“ segir Sveinn.
Sveinn segir erfitt að segja til um framhaldið og hvort ákæruvaldið muni gefa út ákæru.
„Það er ómögulegt að segja. Það er erfitt að ráða í það hvað ákæruvaldið ætlar að gera. Það myndi sæta furðu ef þeir gefa út ákæru fyrir tilraun til hryðjuverka,“ segir Sveinn og bætir við að vegir ákæruvaldsins séu órannsakanlegir. „Við verðum bara að bíða og sjá,“ segir Sveinn.
Hann segir að hann sé í reglulegu sambandi við umbjóðanda sinn.
„Við tölum reglulega. Hann er að taka þessu öllu af merkilegri yfirvegun. Það er búið að setja hans líf á hliðina, þeirra tveggja,“ segir Sveinn.