„Þetta er auð­vitað á­kveðið á­fall en við erum mjög á­nægð með að öll öryggis­kerfi hafi virkað og raf­magn fór aldrei af húsinu,“ segir Júlíus Ingi Jóns­son, fram­kvæmda­stjóri Lava Show.

Eldur kom upp í hús­næði fyrir­tækisins á Fiski­slóð í nótt en þar eru að­stæður eld­goss endur­skapaðar með því að bræða hraun upp í 1100°C og hella því svo inn í sýningar­sal.

Til­kynnt var um eldinn á fjórða tímanum í nótt og kom hann upp í strompi á þaki hússins. Slökkvi­liði gekk vel að ná tökum á eldurinn sem var stað­bundinn í og við strompinn og hafði lítið breiðst út. Öryggis­kerfi virkuðu vel og er allur búnaður í lagi.

„Við erum að rann­saka or­sök eldsins og erum með lík­lega til­gátu,“ segir Júlíus í yfir­lýsingu sem barst fjöl­miðlum nú á tíunda tímanum vegna eldsins.

„Skemmdir innan­dyra eru ó­veru­legar og allur búnaður er í lagi. Mikil­vægast af öllu er auð­vitað að engin slys urðu á fólki. Þetta endaði því vel og það má segja að þetta hafi verið gott öryggis­tékk á starf­seminni áður en við opnum fyrir al­menningi," segir hann.

Lava Show hefur verið starf­rækt í Vík í Mýr­dal síðan 2018 en sem fyrr segir gengur starf­semin út á að endur­skapa að­stæður eld­goss. Sýningunni í Vík hefur verið vel tekið og stendur til að opna Lava Show í Reykja­vík innan tíðar.