Allt stefnir í að flugfélagið PLAY muni flytja jafnmarga farþega í júlímánuði og það flutti allt árið í fyrra.

PLAY flutti 101.053 farþega á þeim sex mánuðum sem félagið stundaði áætlunarflug í fyrra, en fyrsta flugið var farið 24. júní árið 2021.

Samkvæmt upplýsingum frá félaginu er bókunarstaðan fyrir júlí það sterk að allt stefnir í að sú tala verði slegin á einum mánuði.

PLAY mun hafa flutt hátt í 100 þúsund farþega þegar júnímánuði lýkur.

Áhrif Covid-faraldursins eru greinilega þverrandi miðað við tölur frá Ferðamálastofu því maímánuður var metmánuður í brottförum Íslendinga frá landinu.

Tæplega 65 þúsund Íslendingar tóku flugið í þeim mánuði, en áður voru þeir tæplega 63 þúsund í maí 2018.

Allt stefnir í að júnímetið verði slegið í ár en í júní 2018, tóku 71 þúsund Íslendingar flugið frá Keflavíkurflugvelli.