Þjóðskrá var í morgun sýknuð af kröfum í dómsmáli Nazife Billa og Erion Reka, fyrir hönd hinnar tæplega tveggja ára Ernu dóttur þeirra. 

Þetta þýðir að stúlkunni verður að öllum líkindum vísað úr landi til Albaníu ásamt foreldrum sínum. Lögmaður Ernu segir að um sé að ræða mikil vonbrigði fyrir fjölskylduna og alvarlegt sé að ekkert í dómnum snúi að þeirri mismunun sem Erna hefur þurft að sæta, þegar farið var ítarlega yfir þann þátt málsins við aðalmeðferð. 

Mál Ernu hefur verið töluvert til umfjöllunar, en hún er fædd hér á landi og sóttust foreldrar hennar eftir því að lögheimili hennar yrði skráð hér á landi. Foreldrar Ernu komu fyrst til Íslands árið 2015 og sóttu um alþjóðlega vernd. Fengu þau í kjölfarið atvinnuleyfi en var synjað um hæli og vísað úr landi árið 2015. Sneru þau aftur tveimur vikum síðar og var umsóknum þeirra um dvalarleyfi einnig synjað. Erna Reka fæddist svo árið 2017 og var hún í fyrstu skráð í svokallaða utangarðsskrá, en því síðar breytt í lögheimili erlendis. 

Fyrir dómi leituðustu foreldrar Ernu eftir því að ógild yrði skráning Þjóðskrár Íslands þar sem Erna er skráð með lögheimili ótilgreint í Evrópu, sem fyrr segir. 

Þá var leitast eftir því að viðurkennt yrði með dómi að lögheimili Ernu sé í Garðabæ, en hún hefur haft óslitna búsettu hér á landi frá fæðingu. 

Dómsmálið var höfðað með þeim rökum að í 102. grein útlendingalaga segi að óheimilt sé að vísa útlendingi úr landi hafi hann átt fasta óslitna búsettu hér á landi frá fæðingu samkvæmt þjóðskrá. Lögheimili barna umsækjenda um alþjóðlega vernd og umsækjenda um dvalarleyfi eru hins vegar skráð með öðrum hætti.

Foreldrar og lögmenn Ernu telja hins vegar að misnunandi skráning lögheimila barna sé brot á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar sem óheimilt sé að mismuna börnum á grundvelli stöðu foreldra.

Að óbreyttu vísað úr landi

Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, lögmaður Ernu, segir í samtali við Fréttablaðið að fjölskyldunni verði að óbreyttu vísað úr landi en þau hafi þó þess kost að biðja kærunefnd útlendingamála um frestun réttaráhrifa með vísan til þess að þau hyggist áfrýja dómi héraðsdóms. Telur hún líklegt að fjölskyldan muni láta á þann möguleika reyna.

„Þetta eru auðvitað mikil vonbrigði fyrir fjölskylduna. Það er mjög leitt að þegar fjallað er um það ítarlega í stefnu og málflutningi að það að barnið fékk ekki þjóðskrárskráningu varð til mismununar, sem sagt að það þyrfti að borga fullan kostnað af heilbrigðisþjónustu og átti ekki rétt til leikskólavistar, að það var ekkert fjallað um þetta í dómnum. Hvorki það sem sneri að reifun á málsástæðum stefnanda né í sjálfri niðurstöðunni þar sem var farið yfir það af hverju dómurinn gæti ekki fallist á þetta. Það er bara nokkuð alvarlegt að dómstólar fjalli ekki almennilega um réttindi barna lögum samkvæmt. Sem sagt láti það hjá líða í dómnum.“

Aðstand­end­ur og vin­ir Ernu og fjölskyldu hennar standa nú fyr­ir und­ir­skrifta­söfn­un þar sem þess er kraf­ist að Erna fái að njóta rétt­látr­ar málsmeðferðar.