Þrettán jarðskjálftar hafa mælst í Mýrdalsjökli frá því á miðnætti en þrír þeirra hafa mælst yfir þremur að stærð.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Stærsti skjálftinn mældist skömmu fyrir hádegi í dag, klukkan 11.53 og reyndist vera 3,4 að stærð.

Skjálftarnir eru allir staðsettir innan Kötlu öskjunnar en jarðskjálftar af þessari stærðargráðu eru ekki óalgengir á þessum slóðum.

Enginn órói hefur mælst í kjölfar skjálftahrinunnar.