Jarðskjálftahrinan sem gengið hefur yfir á Reykjanesi virðist ekki vera á neinu undanhaldi. Nú rétt fyrir klukkan níu varð nokkuð snarpur skjálfti og fannst hann víða á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni var hann 4,5 að stærð. Að sögn náttúruvársérfræðings á Veðurstofunni hefur órói ekki byrjað aftur samhliða skjálftanum.

Þetta er stærsti skjálfti síðan 2. mars kl. 03:05 en sá var 4.6 að stærð.

Frá miðnætti hafa mælst átján skjálftar yfir 3,0 að stærð. Klukkan 00:59 varð skjálfti af stærðinni 4,1 og svo annar, 4,0, klukkan 05:44 í morgun.

Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, sagði við RÚV í morgun að óróinn sem mældist í gær hefði farið dvínandi í nótt þrátt fyrir mikla jarðskjálftavirkni.