Jarðskjálfti af stærðinni 3,4 mældist um klukkan hálf fjögur í nótt um 110 kílómetra norðaustur af Kolbeinsey en eyjan er nyrsti punktur Íslands.

Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvásérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir skjálftann í nótt ekki óvanalegan fyrir þessar slóðir.

„Við sjáum oft skjálfta svona langt út á Kolbeinseyjarhrygg og þetta er nokkuð venjulegt,“ segir Salóme Jórunn í samtali við Fréttablaðið.

Að sögn Salóme Jórunnar var skjálftinn um 200 kílómetra norður í hafi sem gerir Veðurstofunni erfitt fyrir að staðsetja hann nákvæmlega.

„Við tölum stundum um að þetta sé svona eiginlega á jaðri okkar kerfis,“ segir Salóme Jórunn og bætir við að ekki hafi verið hægt að finna fyrir skjálftanum á landi sökum fjarlægðar.

Aðspurð hvort skjálftinn í nótt sé ótengdur annarri skjálftavirkni á landinu segir hún Salóme Jórunn svo vera.

Salóme Jórunn segir áfram viðvarandi skjálftavirkni á Reykjanesinu og að landris þar sjáist vel á gervitunglamyndum.