Af alls fjórtán umsækjendum var Jónas Jóhannsson, lögmaður og fyrrverandi héraðsdómari, metinn hæfastur til að gegna embætti dómara við Héraðsdóm Reykjaness. Greint var frá umsögn dómnefndar um skipun hæstaréttardómara á vef stjórnarráðsins. Dómnefndina skipuðu Ingimundur Einarsson formaður, Kristín Benediktsdóttir, Óskar Sigurðsson, Ragnheiður Harðardóttir og Sigríður Þorgeirsdóttir.

Jónas er með mesta reynslu af héraðsdómarastörfum af umsækjendum, rúm sextán ár, en rúmur áratugur er síðan hann fékkst við dómsstörf.

Taldi fram hjá sér gengið við skipun átta héraðsdómara 2017

Jónas sótti um stöðu héraðsdómara árið 2017 þegar skipað var í stöðu átta héraðsdómara. Jónas var þá ekki í hópi þeirra sem hæfastir þóttu að mati dómnefndar. Guðlaugur Þór Þórðarson, þáverandi dómsmálaráðherra, fór eftir niðurstöðum dómnefndar þegar hann skipaði í embættin.

Jónas var þá einnig með lengsta reynslu af héraðsdómarastörfum en var ekki metinn hæfastur í þeim þætti. Sagði Jónas við það tilefni samkvæmt frétt Vísis; „Ég hef ráðið mér lögmann og er að fara yfir stöðuna með tilliti til málshöfðunar. Ég tel að nefndin hafi gert á minn hlut og að miski minn sé mikill.“

Jónas höfðaði þó ekki mál vegna skipanarinnar en árið áður hafði Jónas sótt um að gegna embætti héraðsdómara en var ekki metinn hæfastur þá heldur.

Jónas var einnig meðal umsækjenda um stöðu dómara við Landsrétt í vor eftir að Vilhjálmur H. Vilhjálmsson sagði starfi sínu lausu í maí.

Aðrir umsækjendur um stöðu dómara við Héraðsdóm Reykjaness voru:

Auður Björg Jónsdóttir, lögmaður
Ásgeir Jónsson, lögmaður
Guðfinnur Stefánsson, aðstoðarmaður dómara
Guðmundína Ragnarsdóttir, lögmaður
Halldóra Þorsteinsdóttir, lektor
Hákon Þorsteinsson, aðstoðarmaður dómara
Ingi Tryggvason, lögmaður
Ingólfur Vignir Guðmundsson, lögmaður
Magnús Björn Brynjólfsson, lögmaður
Margrét Gunnlaugsdóttir, lögmaður
Ólafur Helgi Árnason, lögmaður
Sólveig Ingadóttir, aðstoðarmaður héraðsdómara
Þórhallur Haukur Þorvaldsson, lögmaður