Jónas Haralds­son lög­fræðingur játar að hafa skvett rauðri málningu á sendi­ráð Rúss­lands hér á landi fyrr á þessu ári. Þetta upp­lýsir hann í að­sendri grein sem birtist í Morgun­blaðinu í dag.

„Að morgni 7. júní sl., er ég var rétt að koma heim á bíl mínum, tók ég eftir því að lög­reglu­bíll var á eftir mér. Erindi lög­reglunnar var að spyrja mig hvort það væri ég sem rétt áður hefði skvett rauðri málningu á skiltið á vegg sendi­ráðs Rúss­lands í Garða­stræti. Játti ég því að sjálf­sögðu og bætti við í fram­haldinu að ég væri einnig sá sem það hefði gert áður eða hinn 3. mars síðast­liðinn,“ segir hann meðal annars.

Jónas segir að lög­regla hafi yfir­gefið svæðið í kjöl­farið og ekki spurt hann hvort það hefði verið hann sem í apríl og maí málaði rauðri málningu yfir skilti við sendi­ráðs­bygginguna á Tún­götu 24.

Jónas segir að á­stæða þess að hann greip til þessara rót­tæku að­gerða hafi verið að­gerðir Vla­dimírs Pútíns Rúss­lands­for­seta í Úkraínu.

„Þá ekki síst vegna þeirra sví­virði­legu stríðs­glæpa og fjölda­morða sem rúss­neski herinn varð síðan í fram­haldinu upp­vís að og öllum er kunnugt um og ekki þarf að tíunda frekar hér. Var mér öllum lokið við að vera upp­lýstur um þessi ó­hæfu­verk rúss­neskra her­manna á sak­lausum ná­grönnum sínum. Af þeim á­stæðum var mér því gjör­sam­lega ó­mögu­legt að sitja að­gerða­laus með hendur í skauti og fylgjast dag­lega í fjöl­miðlum með hrylli­legri fram­göngu rúss­neska inn­rásar­liðsins og fjölda­morðum, hverjar svo sem af­leiðingarnar kynnu síðar að verða fyrir mig vegna við­bragða minna.“

Engar lyktir eru komnar í málið ef marka má orð Jónasar í greininni.

„Hvað mínar áður­nefndu að­gerðir snertir og hugsan­leg við­brögð við þeim, þá mun tíminn leiða í ljós hvert fram­haldið verður þar. Að endingu vil ég á­rétta hve að­dáunar­verð mér þykir bar­átta Úkraínu­manna við að reyna að vernda sjálf­stæði lands síns vegna inn­rásar rúss­nesku heims­valda­sinnanna. Ber öllum þjóðum heims svo og ríkis­borgurum þessara landa skylda til að styðja varnar­bar­áttu Úkraínu­manna af öllum mætti. Megi Úkraínu­mönnum ganga allt í haginn í bar­áttu sinni.“