Jóna Þórey Pétursdóttir, forseti Rannveigar - félags ungra jafnaðarmanna í Kópavogi og fyrrverandi forseti Stúdentaráðs ​Háskóla Íslands, hyggst gefa kost á sér í næstu alþingiskosningum og vill hún skipa forystusveit Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Hún staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið.

Jóna kemur úr framvarðasveit hagsmunabaráttu stúdenta og tók þátt í skipulagningu loftslagsverkfallanna og vill hún halda þeirri baráttu áfram á þingi. Hún segir mikilvægt að ungt fólk hafi málsvara í forystusætum framboðslista og taki virkan þátt í pólitík, sérstaklega á þessum tímum.

„Ég vel Samfylkinguna því mér finnst það sá flokkur sem er tilbúinn til að gera það sem þarf og af alvöru. Með reynsluna úr hagsmunabaráttu stúdenta er ég sannfærð um að hagsmunum námsfólks sé best borgið með Samfylkinguna í forystu og það með ungu fólki sem hefur verið að leiða þessa baráttu,“ segir Jóna Þórey í samtali við Fréttablaðið.

Segir hún stjórnvöld hafa hvorki brugðist við ákalli ungs fólks um aukið afkomuöryggi og bætt kjör né þeim áskorunum sem það stendur frammi fyrir vegna hamfarahlýnunar. Á næsta kjörtímabili stefnir í endurskoðun á nýjum lögum um Menntasjóð námsmanna og segir Jóna þar verk að vinna. „Velferðarkerfið er götótt og fjöldi fólks á öllum aldri lendir milli skips og bryggju,“ segir Jóna.

Jóna Þórey.

„Það eru margir flottir frambjóðendur þegar komnir fram sem vilja leggja sitt af mörkum til að byggja upp samfélagið aftur eftir þennan heimsfaraldur. Ég er klárlega með hjartað þar og nálgast vandamálin, bæði efnahagsvandamálin vegna heimsfaraldurs og stærsta vandamálið sem við stöndum frammi fyrir, hamfarahlýnun, út frá leiðarljósi jafnaðarstefnunnar. Að allir eigi að sitja við sama borð og hafa jafnan rétt á viðunandi lífsskilyrðum og mannsæmandi kjörum.“

Jóna er búin að verja meistararitgerð sína í lögfræði um réttindi námsfólks til framfærslu í atvinnuleysi. „Þetta er víðtækur vandi en hann birtist augljóslega í námslánakerfi á móti atvinnuleysistryggingakerfi og svo fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Það þarf heildræna nálgun á velferðarmálin og ég tel klárlega að það þurfi að bæta ríkjandi og gildandi rétt. Þarna er mikið verk að vinna,“ segir hún og bætir við:

„Það er í höndum uppstillingarnefndar hvernig listinn verður skipaður en nú er tilnefningarferli í gangi.“

Guð­mundur Andri Thors­son, þing­maður Sam­fylkingarinnar, lýsti því yfir í gær að hann vilji „halda áfram“ og fyndist gaman að vera með í því liði sem myndi fjölga þingsætum Samfylkingarinnar.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sendi frá sér tilkynningu í fyrradag um að hún vilji leiða lista flokksins í Suðvesturkjördæmi.