Jóna Þórey Pétursdóttir var í kvöld kjörin forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) með öllum greiddum atkvæðum. Kosningin fór fram á kjörfundi ráðsins en skiptafundur fer fram í maí eftir að vorprófum í skólanum ljúka, að því sem fram kemur í fréttatilkynningu frá SHÍ. Nýtt Stúdentaráð tekur því við í maí eftir skiptafund og einnig ný réttindaskrifstofa Stúdentaráðs. 

Jóna útskrifaðist með BA gráðu í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands vorið 2018 og er að ljúka fyrsta ári í meistaranámi við deildina. Hún hefur starfað sem laganemi hjá Fulltingi slf. frá árinu 2017. Jóna er deildarfulltrúi laganema við lagadeild HÍ og sinnti aðstoðarkennslu við deildina í vetur. Hún hefur verið oddviti Röskvu, samtaka félagshyggjufólks við Háskóla Íslands, í Stúdentaráði síðastliðið ár. Röskva vann meirihluta í kosningum til Stúdentaráðs í febrúar.

Jóna Þórey hefur setið í SHÍ síðastliðið starfsár og lætur nú af störfum sem forseti sviðsráðs Félagsvísindasviðs, sem er eitt af fimm sviðsráðum fræðasviða Háskólans sem saman mynda Stúdentaráð. 

„Jón[u] hlakkar til komandi starfsárs og telur það geta skipt sköpum fyrir stöðu stúdenta í samfélaginu. Hún býst við að staðið verði við loforð um nýtt lánasjóðsfrumvarp og mun leggja áherslu á bætt kjör stúdenta og jafnrétti til náms,“ segir jafnframt í tilkynningunni. 

Á kjörfundi voru einnig eftirfarandi fulltrúar kjörnir, með öllum greiddum atkvæðum, á Réttindaskrifstofu Stúdentaráðs:
Varaforseti: Benedikt Traustason
Hagsmunafulltrúi: Guðjón Björn Guðbjartsson
Lánasjóðsfulltrúi: Marinó Örn Ólafsson