Í viðtali á Fréttavaktinni á Hringbraut í gærkvöld sagði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra að ekki væri ákveðið að hann stigi senn til hliðar sem dómsmálaráðherra til að rýma til fyrir Guðrúnu Hafsteinsdóttur.

„Ég læt þetta ekki raska ró minni, Það er formanns Sjálfstæðisflokksins að ákveða þetta,“ sagði Jón.

Þáttarstjórnandi spurði hvort ekki væri búið að ákveða hvenær skiptin yrðu milli hans og Guðrúnar. „Hún hefur sínar skoðanir á þessu, hún segir það sem henni sýnist,“ sagði Jón.

Í september sagðist Guðrún taka við embætti dómsmálaráðherra innan nokkurra mánaða, um áramót eða á útmánuðum.

Fréttablaðið innti Guðrúnu viðbragða við ummælum Jóns. „Þetta er ákveðið. Það er hægt að hlusta á viðtöl við Bjarna Benediktsson í nóvember þar sem hann tilkynnir þetta. Ég efast ekkert um orð míns formanns. Það er ekki hægt að svíkja kjósendur Suðurkjördæmis," segir Guðrún.