Ríkisstjórnin styrkir sýningu Íslensku óperunnar um þrjár milljónir þrátt fyrir að samningur við sjálfseignarstofnunina hafi ekki verið endurnýjaðir frá 2019.

Samningur Óperunnar við hið opinbera rann út áramótin 2019/2020 en hún fékk styrk upp á 216,3 milljónir króna árið 2020. Sama ár veitti ríkisstjórnin Ís­lensku óperunni fjögurra milljóna króna styrk um­fram fjár­lög þremur vikum eftir að sjö stéttar- og fag­fé­lög leituðu til Lilju D. Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráð­herra vegna fjölda um­kvartana um ein­elti, at­vinnu­róg og samnings­brot af hálfu Ís­lensku óperunnar undir stjórn Steinunnar Birnu Ragnars­dóttur óperu­stjóra.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í síðustu viku að veita þremur milljónum króna af ráðstöfunarfé sínu vegna uppsetningar á óperunni La Traviata á Akureyri, sem Íslenska óperan framleiddi árið 2019. Fagfólk hefur gagnrýnt þessa ákvörðun í ljósi óánægju listamanna með rekstur óperunnar.

„Hvað er að frétta?“

Mikil óánægja hefur kraumað undir yfirborðinu og náði hún hámarki eftir að óperustjóri virti ekki gildandi kjarasamninga FÍH við uppfærslu á Brúðkaupi Fígarós og upp komst um kynbundinn launamun hjá söngvurum sem fram komu í óperunni.

Klassískir söngvarar lýstu yfir algjöru vantrausti á stjórn og óperustjóra Íslenska óperunnar eftir sýknudóm í máli Þóru Einarsdóttur gegn Íslensku óperunnar vegna vangoldinna launa og samningsabrota í tengslum við fyrrnefnda óperu.

Jón Viðar Jónsson, helsti leikhúsgagnrýnandi þjóðarinnar til fjölda ára, segir að bæði Óperan og stjórnvöld þurfi að gera hreint fyrir sínum dyrum.

„Hvað er eiginlega að frétta af Íslensku óperunni?“ byrjar færslan sem hann birti á Facebook í gær.

„Við Óperuna starfa fimm einstaklingar auk óperustjórans og eru þau öll titluð sem einhvers konar stjórar, þannig að ekki verður aðgerðarleysið skrifað á starfsmannaskort! Eða vantar þau kannski undirmenn til að stjórna? Og meðal annarra orða: er þetta fólk allt saman á fullu kaupi?“

Opin­ber stuðningur ekki endur­nýjaður vegna deilnanna

Þegar Fréttablaðið ræddi við ráðuneytið í janúar á þessu ári kom fram að samningur um opinberan stuðning við Íslensku óperan hafði ekki verið endurnýjaður, að hluta til vegna deilna sem hafa staðið um starfsemi Óperunnar.

Fréttablaðið hefur sent aðra fyrirspurn á ráðuneytið til að athuga hvort umræddur styrkur sé tímabundin framlenging eða hvort ríkið hafi þegar endurnýjað samning sinn við Íslensku óperuna. Fagfólk hefur velt upp spurningum um hvort styrkur til Óperunnra sé hreinlega brot lögum um opinber fjármál og reglugerð um undirbúning, gerð og eftirfylgni samninga um framkvæmdir, rekstur og afmörkuð verkefni.

Hvar er þjóðaróperan?

Tillaga um stofnun þjóðaróperu er enn í lausu lofti eftir að nefndarmenn í nefnd um stofnun þjóðaróperu gat ekki komið sér saman um framtíð óperu á Íslandi. Meirihluti nefndarinnar og meirihluti fagfólks sem nefndin ræddi við sögðu mikinn samfélagslegan og listrænan ávinning af því að stofna þjóðaróperu en minnihlutinn vill meðal annars tryggja áfram ákveðna starfsemi hjá Íslensku óperunni eins og með framlengingu samnings. Tveir nefndarmenn í minnihlutanum, Soffía Karlsdóttir og Hjálmar Helgi Ragnarsson, komu með þrjár tillögur: Nýr óperuflokkur og Framlenging samnings við Íslensku óperuna, Sjálfstæð ópera og Ríkisrekin ópera.

Tillögurnar: Þjóðarópera Uppspretta nýsköpunar úr jarðvegi hefðar.

Fréttin var uppfærð 2.11.2021.