Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, mun ekki taka við formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd (SEN) líkt og lagt var upp með í upphafi kjörtímabils. Samningur var gerður á milli Samfylkingar og Pírata um að formennsku nefndarinnar skyldi skipt á milli flokkanna.

Áformað var að Jón Þór yrði formaður í haust og myndi sinna því starfi í eitt ár. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir myndi svo ljúka kjörtímabilinu. Þórhildur Sunna tekur hins vegar við strax í haust.

Jón Þór hefur einnig látið eftir sæti sitt í forsætisnefnd, en Helgi Hrafn Gunnarsson, samflokksmaður Jóns, mun taka sæti í nefndinni í hans stað. Jón Þór mun hins vegar áfram sitja í atvinnuveganefnd og segist geta sinnt starfi sínu þar betur með þessum breytingum.

Aðspurður um ástæður þess að hann víki úr forsætisnefnd og fari ekki með formennsku í SEN, líkt og áformað var, segist Jón Þór vilja einbeita sér að starfi þingmannsins í vetur. „Ég notaði sumarið í að melta það hvar og hvernig kraftar mínir myndu nýtast best. Með þessu get ég farið aftur í grasrótina. Þar á ég heima. Svona get ég einbeitt mér að því sem skiptir landsmenn máli í stað þess að vera fastur í skrifræði þingsins,“ segir Jón Þór.

„Svo þegar ég fór að hugsa út í þetta sá ég að Þórhildur Sunna yrði miklu öflugri formaður en ég,“ segir Jón Þór kíminn.

„Svona get ég verið óbreyttur þingmaður og einbeitt mér að því sem er að gerast fyrir utan skipulagsheildina á Alþingi.“