Jón Þór Ólafsson, formaður stjórnskipunar og eftirlitsnefndar, ætlar að óska eftir því að dómsmálaráðherra og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu aflétti trúnaði um það sem þær sögðu á fundum nefndarinnar í síðustu viku varðandi samskipti sín á aðfangadag. Þetta kemur fram í frétt RÚV.
Stjórnskipunar og eftirlitsnefnd fundaði í morgun og voru símtöl Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra og Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, til umfjöllunar. Næstu skref verða metin á fundi nefndarinnar á morgun, segir Jón Þór í samtali við RÚV.
Áslaug talaði í tvígang við Höllu eftir að lögreglan greindi fjölmiðlum frá sóttvarnabroti í Ásmundarsal en í dagbókarfærslu lögreglunnar var tilkynnt að ráðherra hefði verið í salnum.
Áslaug Arna hefur greint frá því að spurningar fjölmiðla á aðfangadag hefðu snúist um upplýsingagjöf lögreglu og þess vegna hafi hún hringt í lögreglustjórann.
Bæði Áslaug og Halla fóru á fund nefndarinnar í síðustu viku og greindi Jón Þór frá því að nýjar upplýsingar hefðu komið frá á fundinum.
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, lýsti því yfir í samtali við mbl.is að Jón Þór hafi gerst sekur um trúnaðarbrest með ummælum sínum um málið í síðustu viku.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hefur af þessu tilefni sent áréttingu til allra formanna þingnefnda um að trúnaður ríkir um það sem kemur fram á lokuðum nefndarfundum.
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, sagði í samtali við RÚV í byrjun mars að ekkert bendir til óeðlilegrar samskipta milli ráðherra og lögreglustjórans en það þurfi að skoða það betur. Hann sagði það væri eðlilegt hjá ráðherra í ljósi stöðu sinnar tjái sig ekki um málið við fjölmiðla en með sömu rökum hefði verið heppilegra að sleppa því að taka þessi símtöl og færa þessa upplýsingaleit í formlegan búning á milli embættismanna.
Halla Bergþóra Björnsdóttir, greindi frá því fyrir helgi að hún telji að dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, hafi ekki haft afskipti af rannsókn sakamáls í símtölum þeirra á milli á aðfangadag.