Jón Þór Ólafsson, fyrrverandi þingmaður og umboðsmaður framboðslista Pírata í síðustu kosningum, hefur kært Inga Tryggvason, oddvita yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, til lögreglu fyrir kosningasvindl. Jón Þór greinir frá þessu í grein á vef Vísis.

Jón Þór segir í greininni að kæran sé byggð á lýsingum málsatvika í greinargerð undirbúningsnefndar sem birt var í gær.

Jón Þór vísar til þriggja atriða.

  1. Oddviti yfirkjörstjórnar norðvesturkjördæmis (YNV) skapaði sér með lögbroti tækifæri til að svindla á atkvæðunum í Alþingiskosningum,
  2. Oddvitinn hraðaði svo endurtalningu atkvæðanna þannig að lögbundið eftirlit var ómögulegt,
  3. Oddvitinn fór þá rangt með í gerðabók, í fjölmiðlum, fyrir þingnefnd og lögreglu þau málsatvik sem benda á mögulega sekt hans.

Vill hann að lögregla rannsaki hvort Ingi hafi brotið kosningalög með því að hafa vísvitandi rangfært atkvæðagreiðslu.

Ingi vildi ekki tjá sig um greinargerðina í gær.

Jón Þór segir að Ingi hafi verið einn með óinnsigluðum atkvæðum í rúman hálftíma, en ein mínúta nægi til að rangfæra atkvæðagreiðsluna með strokleðri og blýanti. Inga Sæland sagði hins vegar í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að starfsfólk hótelsins hafi verið í herbergi við hliðina á og ekkert bendi til að Ingi hafi átt við gögnin.

Jón Þór vísar í greinargerðina, en þar segir:

„Í þessu tilfelli var um að ræða nægan tíma fyrir viðkomandi til að sýsla með hin óinnsigluðu kjörgögn til að rangfæra atkvæðagreiðsluna með því að stroka út atkvæði 9 kjósenda og merkja á atkvæðaseðilinn við aðra flokka í staðinn. Slíkt varðar fangelsi allt að fjórum skv. 128 gr. laga um kosningar til Alþingis.“