Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari, segir snúið út úr orðum sínum með því að segja að hann vilji að þolendur taki ábyrgð eða þurfi að breyta hegðun sinni til að forðast kynferðisbrot.

Bar­áttu­hópurinn Öfgar sendi í gær frá sér svar við grein Jóns Steinars í Morgunblaðinu á dögunum. Í bréfi Öfga segir að viðhorf Jóns Steinars sé aldagamalt. „Of­beldi er aldrei á á­byrgð þol­enda, það er á­vallt á á­byrgð ger­enda. Þol­endur hafa skilað skömminni. Jón Steinar, vin­sam­legast ekki reyna að þröngva henni upp á okkur aftur.“

Hvatning til fyrirbyggjandi ráðstafana

Jón Steinar segir í grein á vef sínum að hann kannist ekki við því að halda því fram að hann vilji gera þolendur ábyrga á brotum sem þeir verða fyrir. „Grein mín hafði inni að halda hvatningu til þeirra sem útsettir eru fyrir hættu á að verða beittir kynferðisofbeldi sem og hinna sem gætu orðið ofbeldismenn. Var þessu fólki bent á að gera fyrirbyggjandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir brotin eða að minnsta kosti að fækka þeim, því kannski getum við aldrei komið í veg fyrir að þau verði framin,“ segir hann.

„Ég kann ekki að vísa til vísindalegra kannana máli mínu til stuðnings, en ég er samt sannfærður um að þorri kynferðisbrota er framinn af drukknum ofbeldismönnum á drukknum fórnarlömbum þeirra. Stundum er ástæða til að ætla að sá sem ofbeldinu beitir, myndi ekki gera það ef hann væri ekki undir áhrifum vímugjafa.“

Miklu frekar samherji en fjandmaður

Hann segir brot á borð við byrlanir vera skelfileg og allir ættu að sameinast í baráttu gegn slíku. Ofbeldi innan fjölskyldu sé erfiðara viðfangs en það sé vilji til að leita leiða til að draga úr því. „Það er auðvitað grófur útúrsnúningur úr orðum mínu að telja mig vilja gera fórnarlömbin ábyrg fyrir brotunum, sem þau hafa mátt þola. Það er satt að segja furðulegt að sjá ábyrgar öfgakonur gera þessu skóna. Fyrir mér vakti aðeins að reyna að fækka þessum alvarlegu brotum, þó að erfitt sé að finna leiðir sem virka í þá átt.“

Jón Steinar setur upp tilbúið dæmi þar sem konur innbyrði sjálfar lyf sem notuð eru til byrlunar. „Væri ekki við hæfi að hvetja konur til þess að hætta því, svo þær væru ekki varnar- og meðvitundarlausar á skemmtistöðum borgarinnar? Væri sú hvatning fallin til þess að varpa ábyrgð kvenna á þeim glæpum sem þær yrðu fyrir á þær sjálfar? Nei, því jafnvel þá bæru þolendur enga ábyrgð á verknaði gerendanna, þótt draga hefði mátt úr líkum á brotunum,“ segir hann.

Segir Jón Steinar að ef grein hans forði einni konu frá því að vera nauðgað yrði hann sáttur. „Sumir telja það stundum geta orðið málstað til framdráttar að búa til andstæðing jafnvel með því að skrökva á hann sökum. Það er misskilningur hjá ykkur ef þið haldið að þessi aðferð sé vænleg gagnvart mér. Ég hef skömm á ofbeldismönnum og er miklu fremur samherji ykkar en fjandmaður.“