Í grein sem lögmaðurinn Jón Steinar Gunnlaugsson birti á vef sínum og í Morgunblaðinu í dag sakar hann Ara Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, um að ljúga fyrir dómi síðastliðinn fimmtudag til að reyna að koma í veg fyrir að Kristinn Sig­ur­jóns­son, fyrrverandi lektor við HR, fái nýja vinnu, en honum var vikið frá störfum vegna ummæla sinna um konur.

Ummælin sem Kristinn lét falla voru í athugasemd við mynd í lokuðum spjallhópi á Facebook. Hann sagði „það á að aðgreina vinnustaði karla og kvenna. Vandinn er bara að konur reyna alltaf að troða sér þar sem karlmenn vinna, og um leið og þær eru komnar inn, þá byrja þær að eyðileggja hann, því allir kalmennirnir eiga þá að fara að tala, hugsa og hegða sér eins og kerlingar, allt annað er áreiti og ef sagður en neðanbeltisbrandari, svo ég nefni ekki klámbrandari, þá er það kynferðisofbeldi“. Hann bætti við „með viðhorfin eins og þau eru í dag, þá vil ég síður vinna með konum eða hafa þær nærri mér.“

Jón Steinar segir Kristinn hafi orðið fyrir ósanngjarni aðför vegna þessara ummæla og sakar Ara Kristinn Jónsson, rektor HR, um að bera ósannar sakir á Kristinn fyrir dómi síðasta fimmtudag. Kristinn segir ásakanir Ara ósannar og því fullyrðir Jón Steinar að Ari ljúgi.

Jón segir það skaðlegt þegar fjölmiðlar hafa framburð Ara eftir og að Ari sé að ljúga til að koma í veg fyrir að Kristinn fái nýja vinnu. Hann gefur ekki skýringu á því hvers vegna rektor vilji ekki að Kristinn fái vinnu.

Jón Steinar segir að Kristinn hafi átt flekklausan feril hjá HR og nú sé verið að reyna að bæta fyrir ósanngjarna meðferð skólans á honum með eftiráskýringum og stofnlausum ásökunum til að láta skólann líta betur út.

Jón Steinar heldur því líka fram að starfsmenn skólans fái ólíka meðferð hjá stjórnendum hans, þar sem starfsmannastjóri skólans tjáði sig um Kristinn á neikvæðan hátt í lokuðum umræðuhópi á Facebook án afleiðinga. Hann segir þau ummæli vera miklu skaðlegra fyrir HR en ummæli Kristins.

Að lokum segir Jón að fjölmiðlar hafi ekki fjallað um málið á sanngjarnan hátt og leiður líkur að því að fréttamenn vilji heldur ekki að Kristinn fái aðra vinnu. Því þurfi hann að segja frá þessu til að vernda hagsmuni Kristins.