Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, segir að lögum samkvæmt hafi Sindri Þór Stefánsson, fanginn sem strauk að Sogni fyrr í vikunni, verið frjáls ferða sinna eftir að gæsluvarðhaldsúrskurður yfir honum féll úr gildi.

„Ef að þetta er þannig að gæsluvarðhaldsúrskurður yfir manninum var runninn út, og ég tek það fram að ég veit auðvitað ekki um efni málsins og gef mér bara þessar forsendur, og það er ekki búið að kveða upp nýjan, þá er maðurinn bara frjáls ferða sinna,“ segir Jón Steinar í samtali við Fréttablaðið og ítrekar að hans skoðun sé sú að ef það eigi að framlengja gæsluvarðhald yfir handteknum einstaklingi, þá þurfi að afla úrskurðar um framlengingu áður en fyrri úrskurður rennur út.

„Ef það hefur staðið þannig á þá er mjög undarlegt að vera að tala um eitthvað strok. Þetta er bara maður sem nýtur frelsis og er ekkert í neinni gæslu eða frelsissviptingu.“

Hann tekur undir orð Kristínar Benediktsdóttur, dósents í réttarfari við Háskóla Íslands, sem sagði í kvöldfréttum RÚV að lögreglu hafi verið óheimilt að halda Sindra eftir að gæsluvarðhaldsúrskurðurinn yfir honum rann út. Sindri hefur setið í fangelsi, grunaður um aðild að þjófnaði 600 tölva úr gagnaveri á Suðurnesjum, að andvirði um 200 milljóna króna.

Frelsissvipting alvöruþrungið mál

„Það er hvergi í lögum heimild fyrir því að framlengja frelsissviptingu í einhvern tíma þegar lögreglan og yfirvöld eru að böggla með sér einhveja yfirferð á málinu,“ segir Jón Steinar. 

Hann segir frelsissviptingu vera alvöruþrungið mál og að það gefi augaleið að ekki sé hægt að taka sér einhvern frest ef úrskurðurinn er útrunninn. Kristín vísaði í kvöldfréttum RÚV í dóm Hæstaréttar frá 2013 þegar sakborningur var leiddur fyrir dómara tíu mínútum áður en gæsluvarðhaldsúrskurður rann út. Tók dómarinn sér umhugsunarfrest og segir í forsendum dómsins:

Á tímabilinu frá því að gæsluvarðhaldið rann út, þar til hinn kærði úrskurður var kveðinn upp, var varnaraðili í haldi lögreglu. Í öðrum málslið 1. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 er svo fyrir mælt að gæsluvarðhald verði ekki framlengt nema til komi nýr úrskurður. Samkvæmt því var varnaraðili sviptur frelsi í tæpan sólarhring án lagaheimildar og með því brotið gegn skýrum fyrirmælum 1. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar. Er það stórlega vítavert.

Þessum forsendum segist Jón Steinar vera sammála.

„Það eru ákveðin skilyrði í lögum fyrir að það megi handtaka menn. Það er bara að verið að setja upp einhver leiktjöld. Ef maðurinn hefur verið í gæsluvarðhaldi, að það megi þá handtaka hann í annað sinn af þeirri ástæðu að lögregla og dómstólar hafa forsmáð skyldur sínar í að klára á hann áframhaldandi gæsluvarðhald.“

Fólk verði meðhöndlað eftir reglum réttarríkisins

Hann segist ekki vilja fullyrða um að handtaka Sindra hefði verið heimil eða ekki en tekur fram að það finnist honum að vera að fara í kringum lagareglur og vísar til 90. greinar um meðferð sakamála:

Lögreglu er rétt að handtaka mann ef rökstuddur grunur leikur á að hann hafi framið brot sem sætt getur ákæru, enda sé handtaka nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, til að tryggja návist hans eða öryggi hans eða annarra ellegar til að koma í veg fyrir að hann spilli sönnunargögnum.

„Það er löngu kominn tími til þess að íslenskir lögreglumenn og dómstólar meðhöndli fólk eftir reglum réttarríkisins og það sé ekki verið að kasta höndunum til þess, ef menn eru í gæsluvarðhaldi, að það megi bara sleppa þeim og handtaka þá aftur og allt það.“

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagði í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2 að samkvæmt lögum hafi lögreglu verið heimilt að halda Sindra eftir að úrskurðurinn féll úr gildi, auk þess sem það væri hreinlega viðtekin venja. 

En stangast útskýringar hans ekki á við þínar?

„Þú ættir kannski að spyrja hann hvaða lagaheimild sé fyrir þessu. Eins og mér skilst þá var þessi maður ekkert handtekinn aftur. Það rann út gæsluvarðhaldstíminn og hann bara fór,“ segir Jón Steinar að lokum.