Innlent

Jón Steinar áfram áminntur fyrir ókurteisi

Áminning LMFÍ á hendur Jóni Steinari Gunnlaugssyni vegna ókurteisi stendur, samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.

Jón Steinar Gunnlaugsson var áminntur fyrir ókurteisi í garð dómstjóra. Hann stefndi Lögmannafélaginu vegna málsins. Fréttablaðið/Ernir

Lögmannafélag Íslands var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag sýknað af kröfu Jóns Steinars Gunnlaugssonar, fyrrverandi Hæstaréttardómara, um að áminning á hendur honum verði felld úr gildi. Jón Steinar stefndi félaginu eftir að hafa verið áminntur af úrskurðarnefnd lögmanna fyrir brot á siðareglum vegna tölvupósta sem hann sendi Ingimundi Einarssyni, dómstjóra í Héraðsdómi Reykjavíkur, í lok ársins 2016. 

Ingimundur kvartaði til Lögmannafélagsins eftir tölvupóstssendingarnar frá Jóni Steinari og sagðist telja það einsýnt að framkoma Jóns hafi brotið í bága við siðareglur lögmanna, almenna kurteisi og samskiptavenjur og sé stétt lögmanna var til framdráttar. Hann sagðist hafa kvartað svo hvorki hann né aðrir í hans stöðu þurfi eftirleiðis að sitja undir skætingi sem þessum, líkt og hann orðaði það í bréfi sínu til félagsins. 

Óttar Pálsson, lögmaður Lögmannafélagsins, við dómsuppsöguna í morgun. Fréttablaðið/Ernir

Tölvupóstarnir voru vegna dómsmáls sem Jón Steinar vildi fá flýtimeðferð á. Ingimundur hafnaði beiðni hans vegar. Jón Steinar taldi afgreiðslu dómstjórans óásættanlega og spurði hvort hann væri að reyna að gera sig að óhæfum lögmanni í augum umbjóðanda síns.

Fyrir dómi benti Jón Steinar á bréf sem hann hafði sent Ingimundi og innihélt gögn málsins. Í því bréfi sagðist Jón Steinar geta afhent frekari gögn, sé þess krafist. 

„Með stefnunni fylgir listi yfir þau skjöl sem til stendur að leggja fram við þingfestingu málsins. Þau eru mikil að vöxtum. Ef þér óskið að fá einhver þeirra til athugunar, áður en afstaða verður tekin til beiðninnar um útgáfu stefnunnar, verða þau send yður,“ sagði Jón Steinar í bréfi sínu til Ingimundar. Ingimundur hafnaði hins vegar beiðninni á þeim grundvelli að gögn hafi verið ófullnægjandi og sagðist Jón Steinar eðlilega hafa orðið ósáttur í ljósi þess sem fram hafði farið þeirra á milli. 

Vonandi sefur þú vel næstu nótt

Ingimundur sendi Jóni Steinari eftirfarandi skilaboð: 

„Sæll. Ég hef nú afgreitt erindi þitt, dags. 5. des. sl. Beiðni um flýtimeðferð er hafnað og fylgir bréf mitt þess efnis hjálagt. Ég hef þegar beðið afgreiðslu dómsins um að senda þér frumrit bréfsins ásamt gögnum málsins."

Jón Steinar svaraði skeyti dómstjórans um hæl: 

„Sæll dómstjóri.

Efni þessa bréfs er furðulegt og reyndar eins konar högg undir beltisstað. Ég kom að máli við þig áður en ég sendi erindið. Ég sagði þér að gögn málsins væru mikil að vöxtum og gerði ráð fyrir að senda þau með. Þú taldir það óþarfa og komum við okkur saman um að þú fengir skjalaskrána og myndir svo kalla eftir gögnum ef þú teldir þörf á. Það er þá líklega best núna að senda þér nýja beiðni og láta öll gögnin fylgja.

Ég man ekki eftir svona framgöngu embættismanns eða dómara fyrr á starfsæfi minni sem spannar um hálfa öld.

Vonandi sefur þú vel næstu nótt.“

Ingimundur sagðist í framhaldinu ekki hirða um ávirðingar lögmannsins. Jón Steinar sagði þá: „Ég finn hjá mér þörf á að ljúka þessum óskemmtilegu samskiptum við þig, mann sem ég hef jafnan talið að væri þokkalega heiðarlegur maður með sæmilegt jarðsamband.“

Jón Steinar lagði fram aðra beiðni um flýtimeðferð, sem einnig var hafnað, með vísan til þess hve langur tími hefði liðið . Jón Steinar sendi þá póstinn:

„Ég var að lesa synjun þína á beiðni um flýtimeðferð og rökin fyrir henni.

Leyf mér bara að segja við þig Þú ættir að láta af hroka og yfirlæti sem svo mjög hefur einkennt afstöðu þína í þessu máli. Það fer miklu betur á því að sleppa slíku þó að menn kunni að líta stórt á sig. Þeim líður að jafnaði betur þannig."  

Ingimundur sendi formanni Lögmannafélagsins bréf í janúar síðastliðnum þar sem hann rakti þessi samskipti þeirra tveggja. Segist hann í bréfinu tilefni til að vekja athygli á framgöngu lögmannsins, sem hann sagðist telja bera vott um fádæma dónaskap, virðingarleysi og vanstillingu hans gagnvart lögboðnum verkefnum dómstjóra. 

Úrskurðarnefnd lögmanna taldi brotið alvarlegt og í úrskurðinum segir að við ákvörðun viðurlaganna hafi verið horft til þess að brot Jóns Steinars lúti að þeim mikilvægu hagsmunum réttarkerfisins að samskipti séu fagleg og grundvölluð á virðingu. Víki lögmenn frá þessu í andstöðu við lög eða siðareglur sé farið gegn hagsmunum og þar með hagsmunum skjólstæðinga þeirra. „Nefndin telur brot kærða alvarlegt og sætir hann áminningu vegna þess.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Tveir teknir með fölsuð skilríki í Norrænu

Innlent

Al­menningur ekki varinn með inn­flutnings­banni

Innlent

„Plebba­skapur ein­stakra þing­manna“ þekki engin tak­mörk

Auglýsing

Nýjast

Klám­mynda­leik­kona vill verða ríkis­stjóri

For­dæma mútur skóla­stjórn­enda með pizzum

Bein út­sending: Aðal­fundur Isavia

Flytja í eigin í­búða­kjarna: „Ég mun sakna mömmu“

Icelandair varar far­þega við verk­föllum

Fimm um borð í leku skipi: Mikill viðbúnaður

Auglýsing