Leikarinn og óperusöngvarinn Jón Sigurbjörnsson er látinn. Hann lést á dvalarheimilinu Hrafnistu í gær.

Þetta kom fram í tilkynningu frá aðstandendum til Fréttablaðsins í kvöld.

Jón giftist leikkonunni Þóru Friðriksdóttur og áttu þau tvær dætur, Láru og Kristínu.

Hann ólst upp í Borgarnesi en eftir að hafa lært leiklist og tónlist hér á landi fór Jón í leiklistarnám við The American Academy of Dramatic Arts í New York og lauk þaðan prófi vorið 1948. Söngnám stundaði hann í New York samhliða leiklistarnáminu.

Jón fór síðar til Ítalíu til að læra óperusöng en hann hóf leiklistaferil sinn hjá Leikfélagi Reykjavíkur árið 1949.

Jón var fastráðinn leikari við Þjóðleikhúsið 1960-67, að undanskildum árunum 1964 og 1965, er hann var ráðinn til konunglegu sænsku óperunnar í Stokkhólmi. Hann var formaður Leikfélags Reykjavíkur frá 1956-59.

Jón fluttist að Helgastöðum í Biskupstungum árið 1992, þar sem hann stundaði sitt helsta áhugamál síðustu árin, hestamennsku og hrossarækt. Síðustu 6 árin bjó Jón á Hrafnistu í Reykjavík.