Skipun Sjálfstæðismannsins Jóns Gunnarssonar í embætti dómsmálaráðherra er umdeild og hafa rúmlega tvö þúsund manns hafa skrifað undir undirskriftalista Baráttuhóps gegn ofbeldismenningu þar sem henni er mótmælt. Jón var gestur Einars Þorsteinssonar í Kastljósi á RÚV í kvöld þar sem hann ræddi þá óánægju sem margir hafa lýst yfir vegna komu hans í dómsmálaráðuneytið, einkum vegna ráðningar hans á Brynjari Níelssyni sem aðstoðarmanni. Hreinn Loftsson var einnig ráðinn aðstoðarmaður hans en hann gegndi því starfi einnig í ráðherratíð Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur.
Jón sagði fólk hafa rétt á sínum skoðunum og að tjá þær en hann væri þeim „hjartanlega ósammála.“ Umræðan þyrfti að vera málefnaleg.
„Þetta ráðuneyti er með víðfeðmt málasvið. Ég er auðvitað ráðherra í þessu ráðuneyti og er að ráða mér aðstoðarmenn sem geta þá bætt við þekkingu og reynslu mína í mörgum af þeim málaflokkum sem þarna eru inni“, sagði Jón aðspurður um hvers vegna ráðningar á aðstoðarmönnum endurspegluðu ekki betur þær samfélagslegu breytingar sem hafa orðið á undanförnum árum varðandi kynferðisofbeldi og tengt mál.
„Báðir aðstoðarmenn mínir, eins ólíkir menn og þeir eru, hafa áratugareynslu á þessu sviði, þegar kemur að mjög mikilvægum málaflokkum í þessu ráðuneyti“, sagði Jón. „Ég er fyrst og fremst að fá til liðs við mig menn sem hafa yfirburðaþekkingu og reynslu eins og ég segi. Ég er að nýta krafta þeirra fyrst og fremst í þessa átt.“

„Hvað getur Brynjar Níelsson ráðlagt þér?“ spurði Einar og birti skjáskot af þremur fréttum þar sem Brynjar kemur við sögu, meðal annars þar sem hann tjáði sig um málefni dæmds barnaníðings og Stígamót.
„Hann er búinn að vera stuðandi í umræðunni um konur og kvenfrelsi og ofbeldismál gegn konum, verjandi barnaníðinga. Hann er einhvern veginn erkitýpan af þeim sem gera allt vitlaust í þessari umræðu“, sagði Einar og spurði hvort ráðningin væri ekki „algjör pólitísk mistök“ af hálfu ráðherrans.
Hann verður að svara fyrir það sem hann hefur sagt einhvern tíman áður um þau.
„Ég ætla að verja það algjörlega út frá þeim forsendum sem ég sagði hér áðan. Við Brynjar höfum oft rætt þessi mál“, svaraði Jón og aðspurður um hvort að þeir væru sammála í þessum efnum sagði hann þá vera sammála um mikilvægi þeirrar umræðu sem hafi átt sér stað og að svipta „þessum huliðshjálmi sem verið hefur í þessum viðkvæma málaflokk. Brynjar hefur svolítið einstakt lag oft á að koma orðum þannig að hlutunum þannig að það geti stuðað fólk - ekki bara í þessum málum heldur svo mörgum öðrum. Það má taka fjölmörg dæmi um það. En eins og ég segi, það er ég sem er ráðherra í þessum málaflokki, ég marka stefnuna í því hvert við förum og hvernig við tölum í þessum málum sem öðrum í ráðuneytinu. Hann verður að svara fyrir það sem hann hefur sagt einhvern tíman áður um þau.“
Stjórnvöld brugðist við ákalli um breytingar
Jón sagði að hann hefði gert sér grein fyrir því að umræðan gæti þróast með þessum hætti vegna ráðningar Brynjars. „Ég þekki ekki þá hlið á Brynjari Níelssyni né frekar á sjálfum mér, að við séum ekki mjög áfram um að réttlætið nái fram að ganga í þessum málum eins og öðrum.“
Hann sagði að flestir væru í þeirri stöðu að þekkja konur sem þola hefðu mátt ofbeldi og hann væri einn þeirra. Það væri fagnaðarefni að tekið væri á þessari „meinsemd sem verið hefur í okkar samfélagi“.
Stjórnvöld hefðu brugðist við þessari þróun með breytingum til stuðnings þessarar baráttu og bregðast við auknum fjölda tilkynninga um kynferðisbrot.