Skipun Sjálf­stæðis­mannsins Jóns Gunnars­sonar í em­bætti dóms­mála­ráð­herra er um­deild og hafa rúm­lega tvö þúsund manns hafa skrifað undir undir­skriftalista Bar­áttuhóps gegn of­beldis­menningu þar sem henni er mót­mælt. Jón var gestur Einars Þor­steins­sonar í Kast­ljósi á RÚV í kvöld þar sem hann ræddi þá ó­á­nægju sem margir hafa lýst yfir vegna komu hans í dóms­mála­ráðu­neytið, einkum vegna ráðningar hans á Brynjari Níels­syni sem að­stoðar­manni. Hreinn Lofts­son var einnig ráðinn að­stoðar­maður hans en hann gegndi því starfi einnig í ráð­herra­tíð Ás­laugar Örnu Sigur­björns­dóttur.

Jón sagði fólk hafa rétt á sínum skoðunum og að tjá þær en hann væri þeim „hjartan­lega ó­sam­mála.“ Um­ræðan þyrfti að vera mál­efna­leg.

„Þetta ráðu­neyti er með víð­­feðmt mála­­svið. Ég er auð­vitað ráð­herra í þessu ráðu­neyti og er að ráða mér að­­stoðar­­menn sem geta þá bætt við þekkingu og reynslu mína í mörgum af þeim mála­­flokkum sem þarna eru inni“, sagði Jón að­spurður um hvers vegna ráðningar á að­­stoðar­­mönnum endur­­­spegluðu ekki betur þær sam­­fé­lags­­legu breytingar sem hafa orðið á undan­­förnum árum varðandi kyn­­ferðis­of­beldi og tengt mál.

„Báðir að­stoðar­menn mínir, eins ó­líkir menn og þeir eru, hafa ára­tuga­reynslu á þessu sviði, þegar kemur að mjög mikil­vægum mála­flokkum í þessu ráðu­neyti“, sagði Jón. „Ég er fyrst og fremst að fá til liðs við mig menn sem hafa yfir­burða­þekkingu og reynslu eins og ég segi. Ég er að nýta krafta þeirra fyrst og fremst í þessa átt.“

Brynjar Níels­son hefur látið um­deild um­mæli falla um ýmis­legt sem við­kemur kyn­ferðis­brotum.
Fréttablaðið/ Vilhelm Gunnarsson

„Hvað getur Brynjar Níels­son ráð­lagt þér?“ spurði Einar og birti skjá­skot af þremur fréttum þar sem Brynjar kemur við sögu, meðal annars þar sem hann tjáði sig um mál­efni dæmds barna­níðings og Stíga­mót.

„Hann er búinn að vera stuðandi í um­ræðunni um konur og kven­frelsi og of­beldis­mál gegn konum, verjandi barna­níðinga. Hann er ein­hvern veginn erki­týpan af þeim sem gera allt vit­laust í þessari um­ræðu“, sagði Einar og spurði hvort ráðningin væri ekki „al­gjör pólitísk mis­tök“ af hálfu ráð­herrans.

Hann verður að svara fyrir það sem hann hefur sagt ein­hvern tíman áður um þau.

„Ég ætla að verja það al­gjör­lega út frá þeim for­sendum sem ég sagði hér áðan. Við Brynjar höfum oft rætt þessi mál“, svaraði Jón og að­spurður um hvort að þeir væru sam­mála í þessum efnum sagði hann þá vera sam­mála um mikil­vægi þeirrar um­ræðu sem hafi átt sér stað og að svipta „þessum huliðs­hjálmi sem verið hefur í þessum við­kvæma mála­flokk. Brynjar hefur svo­lítið ein­stakt lag oft á að koma orðum þannig að hlutunum þannig að það geti stuðað fólk - ekki bara í þessum málum heldur svo mörgum öðrum. Það má taka fjöl­mörg dæmi um það. En eins og ég segi, það er ég sem er ráð­herra í þessum mála­flokki, ég marka stefnuna í því hvert við förum og hvernig við tölum í þessum málum sem öðrum í ráðu­neytinu. Hann verður að svara fyrir það sem hann hefur sagt ein­hvern tíman áður um þau.“

Stjórn­völd brugðist við á­kalli um breytingar

Jón sagði að hann hefði gert sér grein fyrir því að um­ræðan gæti þróast með þessum hætti vegna ráðningar Brynjars. „Ég þekki ekki þá hlið á Brynjari Níels­syni né frekar á sjálfum mér, að við séum ekki mjög á­fram um að rétt­lætið nái fram að ganga í þessum málum eins og öðrum.“

Hann sagði að flestir væru í þeirri stöðu að þekkja konur sem þola hefðu mátt of­beldi og hann væri einn þeirra. Það væri fagnaðar­efni að tekið væri á þessari „mein­semd sem verið hefur í okkar sam­fé­lagi“.
Stjórn­völd hefðu brugðist við þessari þróun með breytingum til stuðnings þessarar bar­áttu og bregðast við auknum fjölda til­kynninga um kyn­ferðis­brot.

Hér má sjá við­talið við Jón í Kast­ljósi í heild sinni.