Jón Finnbjörnsson, dómari við Landsrétt er einn þriggja umsækjenda um lausa stöðu við Landsrétt. Jón er nú þegar dómari við réttinn en hann er einn af þeim fjórum dómurum fjórum sem dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu tekur til, sem ekki hefur fengið nýja skipun við réttinn. Hinir þrír eru Ásmundur Helgason sem fékk nýja skipun 17. apríl síðastliðinn, Arnfríður Einarsdóttir fékk nýja skipun 1. júlí og Ragnheiður Bragadóttir 15. september.

Jón er því eini dómarinn við réttinn sem tekur ekki þátt í að dæma mál við Landsrétt og er hann í launuðu leyfi við réttinn.

Fréttablaðið greindi frá því í síðustu viku að mál hans yrði tekið til skoðunar hjá Dómstólasýslunnar nú þegar dómur yfirdeildar Mannréttindadómstólsins liggur fyrir.

Jón lenti í 30. sæti af 33 umsækjendum í mati dómnefndar í aðdraganda fyrstu skipunar fimmtán dómara við réttinn. Hann fékk 4.325 stig í matinu en fékk samt stöðu við réttinn og var tekinn fram yfir fjóra umsækjendur sem höfðu á bilinu 5,5 til 6,2 stig í matinu.

Með vísan til þess hve neðarlega hann lenti í mati dómnefndar gæti reynst torsótt fyrir hann að fá nýja skipun með því að sækja aftur um eins og hinir dómararnir þrír hafa gert með árangursríkum hætti.

Hvorki er hægt að skikka dómara í leyfi, né leysa þá frá embætti nema með dómi, vegna ákvæðis stjórnarskrár um sjálfstæði dómsvaldsins. Dómararnir fjórir hættu að taka þátt í meðferð dómsmála við réttinn þegar fyrri dómur MDE var kveðinn upp í mars í fyrra og í nóvember höfðu allir dómararnir fjórir óskað eftir launuðu leyfi við réttinn. Þar sem hinir þrír hafa allir fengið nýja skipun við réttinn er Jón sá eini sem enn er í leyfi vegna Landsréttarmálsins.

Þrír sóttu um stöðu dómara við Landsrétt sem laus er til umsóknar. Auk Jóns sóttu um, Símon Sigvaldason, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur og Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari.