Jón Þór Þorvaldsson varaþingmaður Miðflokksins ætlar sér að taka sæti á þingi í stað Bergþórs Ólasonar sem tilkynnti um helgina að hann ætlaði í leyfi í kjölfar þess að hann náðist á upptöku ásamt fimm öðrum þingmönnum á Klaustri. Í upptökunum mátti heyra þingmennina hæðast að ýmsum samstarfsfélögum sínum og þjóðfélagshópum.

Jón Þór tilkynnti fyrr í dag að hann myndi ekki taka sæti á þingi nema það væri ljós að menn iðruðust gjörða sinna. Hann hefur því í dag rætt bæði við forystu flokksins og þá sem standa honum næst í hans kjördæmi.

„Það var farið yfir þetta leiðindamál. Við áttum mjög hrein og einlæg samskipti og þetta var rætt í þaula,“ segir Jón Þór í samtali við Fréttablaðið í kvöld.

Iðrun alger forsenda

Hann segir það hafa verið algera forsendu þess að hann tæki sæti í stað Bergþórs að fram kæmi að menn iðruðust gjörða sinna. Hann segir það hafa komið skýrt fram í öllum þeim samtölum sem hann átti í dag vegna málsins.

„Ég sé að menn eru miður sín yfir þessu, eðlilega og vonandi. Í framhaldinu er búið að ræða það að Miðflokkurinn ætlar að vera í forystu og til fyrirmyndar í framtíðinni. Að við setjum einhvern standard um mannasiði sem fólki verður ætlað að fylgja,“ segir Jón.

Snýst um að kunna mannasiði

Spurður hvort það sé á stefnu að fara yfir siðareglur flokksins segir hann það eflaust á dagskrá en segir þó málið eflaust snúast meira um að kunna almenna mannasiði.

„Ég er á þeirri skoðun að siðareglur er eitthvað sem er allt í lagi að setja, en þetta snýst bara um að kunna mannasiði. Það er hægt að setja alls kyns siðareglur en það kannski breytir því ekkert hvernig fólk hagar sér. En ég held að það sé mikið atriði að fólk kunni að haga sér hvort við annað og beri ábyrgð á gjörðum sínum. Það er inntakið í þessu öllu og það er enginn flokkur sem hefur betri hvata til þess að fara í þá vinnu en við, því þetta kom upp hjá okkur,“ segir Jón

Ekki er ljóst hversu lengi Bergþór ætlar að vera í leyfi en Jón segir að hann sé tilbúinn að sitja eins lengi og hann fái tækifæri til og þurfi.

„Það kemur í ljós. Menn þurfa að fara núna að hugsa sinn gang og vinna í sínum málum. Það verður að koma í ljós hvað það tekur langan tíma,“ segir Jón.

Ætlar að leggja áherslu á samgöngu- og flugmál

Spurður hvaða málefni hann ætli sér að leggja áherslu á þegar hann tekur sæti á þingi segir Jón að samgöngu- og flugmál standi honum nærri og hann muni beita sér fyrir þeim.

 „Það er eitt og annað í gangi þar. Bæði í stjórnkerfinu og hjá eftirlitsaðilum sem að þarf að skoða. Ég gæti best trúað að það verði tekið upp fljótlega,“ segir Jón að lokum.

Gunnar Bragi Sveinsson hefur einnig tilkynnt að hann ætli í leyfi. Í hans stað kemur inn varaþingmaðurinn Una María Óskarsdóttir.