Jón G. Frið­jóns­son prófessor hlaut í dag, á degi ís­lenskrar tungu, verð­laun Jónasar Hall­gríms­sonar en í ár voru verð­launin af­hent í tuttugasta og fjórða sinn. Verð­launin eru af­hent sex­tánda nóvember ár hvert, á fæðingar­degi Jónasar Hall­gríms­sonar, til þeirra sem hafa með sér­stökum hætti unnið ís­lenskri tungu í gagn og stuðlað að eflingu, fram­gangi og miðlun málsins.

„Ég óska Jóni hjartan­lega til hamingju með verð­launin og þakka honum inni­lega fyrir hans merka starf á sviði kennslu og rann­sókna. Hann hefur með ást­ríðu og hug­sjón unnið ís­lenskunni ó­mælt gagn og með miðlun sinni tendrað á­huga annarra á tungu­málinu, ekki síst í gegnum stór­fróð­legar bækur sínar og kennslu­efni,” sagði Lilja Al­freðs­dóttir, mennta- og menningar­mála­ráð­herra, en hún af­henti verð­launin.

Jón hefur kennt mál­vísindi og ís­lenska mál­fræði við Há­skóla Ís­lands um ára­tuga skeið og hefur verið meðal braut­ryðj­enda í kennslu ís­lensku sem annars máls. Í greinar­gerð ráð­gjafar­nefndar kemur fram að hann hafi gefið út ýmis rit auk fjölda greina sem bera vitni um ó­bilandi á­huga og þekkingu á ís­lensku máli.

Frá upp­hafi hafa um tíu ungar konur starfað í Reykja­víkur­dætrum á hverjum tíma en hljómsveitin var stofnuð fyrir sex árum.

Hljóta viður­kenningu fyrir að vera rödd tímans

Þá fengu einnig Reykja­víkur­dætur viður­kenningu í til­efni dagsins en sam­kvæmt greinar­gerð ráð­gjafar­nefndar hafa þær á síðustu sex árum skorað á feðra­veldið í heimi ís­lenskrar rapp­tón­listar og orðið fyrir­myndir ungra kvenna. „Þær fjölluðu strax frá byrjun um reynslu­heim ungra kvenna á ís­lensku nú­tíma­máli sem þær beita á skapandi og oft og tíðum ögrandi hátt,“ segir í greinar­gerðinni.

„Reykja­víkur­dætur hljóta þessa viður­kenningu fyrir að vera rödd tímans, allra fjall­kvenna landsins, sem Linda Vil­hjálms­dóttir orti um, full­valda og sjálf­stæðra,“ segir enn fremur í greinar­gerðinni en frá upp­hafi hafa um tíu ungar konur starfað í Reykja­víkur­dætrum á hverjum tíma.

Afhending verðlaunanna fór fram í dag í Gamla bíói í Reykjavík en verðlaunin voru fyrst afhent árið 1996.