Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítalanum, hefur sagt upp störfum. Hann segir að ástæðan sé að hluta til langvarandi álag og þrengsli á bráðamóttökunni.
Greint var frá þessu í fréttum RÚV í sjónvarpi klukkan 19.
„Ég byrjaði að vinna á Landspítalanum fyrir 25 árum síðan og 24 af þeim árum hef ég unnið á bráðamóttökunni,“ sagði Jón Magnús í fréttum Sjónvarps en hann hefur ráðið sig til Heilsuverndar þar sem hann mun taka við starfi framkvæmdastjóra lækninga.
Þegar hann var spurður um ástæður þess að hann ákveður nú að söðla um sagði hann að um spennandi verkefni hjá Heilsuvernd væri að ræða. „Síðan er þetta langur tími á einum stað og margir hlutir sem hafa breyst á þeim tíma og aðrir hlutir ekki,“ sagði hann og vísaði til mikils álags á bráðamóttökunni og ákall um breytingar á aðstæðum þar að lútandi.
„Því miður hefur ekki gengið nægjanlega vel að breyta skipulagi innan spítalans sem kemur í veg fyrir að þetta vandamál kemur upp aftur,“ sagði Jón Magnús sem sagði að uppsögnina mætti að hluta til rekja til þessarar staðreyndar en fyrst og fremst til þess að um nýtt og spennandi verkefni er að ræða.