Jón Magnús Kristjáns­son, yfir­læknir bráða­lækninga á Land­spítalanum, hefur sagt upp störfum. Hann segir að á­stæðan sé að hluta til lang­varandi álag og þrengsli á bráða­mót­tökunni.

Greint var frá þessu í fréttum RÚV í sjón­varpi klukkan 19.

„Ég byrjaði að vinna á Land­spítalanum fyrir 25 árum síðan og 24 af þeim árum hef ég unnið á bráða­mót­tökunni,“ sagði Jón Magnús í fréttum Sjón­varps en hann hefur ráðið sig til Heilsu­verndar þar sem hann mun taka við starfi fram­kvæmda­stjóra lækninga.

Þegar hann var spurður um á­stæður þess að hann á­kveður nú að söðla um sagði hann að um spennandi verk­efni hjá Heilsu­vernd væri að ræða. „Síðan er þetta langur tími á einum stað og margir hlutir sem hafa breyst á þeim tíma og aðrir hlutir ekki,“ sagði hann og vísaði til mikils á­lags á bráða­mót­tökunni og á­kall um breytingar á að­stæðum þar að lútandi.

„Því miður hefur ekki gengið nægjan­lega vel að breyta skipu­lagi innan spítalans sem kemur í veg fyrir að þetta vanda­mál kemur upp aftur,“ sagði Jón Magnús sem sagði að upp­sögnina mætti að hluta til rekja til þessarar stað­reyndar en fyrst og fremst til þess að um nýtt og spennandi verk­efni er að ræða.