Jón Magnús Jóhannesson, læknir, undrast samfélagsumræðu á Íslandi í kringum Covid-19.

Jón Magnús deildi innleggi í Facebook-hópnum Vísindi í íslenskum fjölmiðlum þar sem hann segir heimsfaraldurinn aldrei hafa endað.

Umræðan hafi þó verið á þann veg að helst hafi ekki mátt tala um Covid-19.

„Þetta er ekki búið. Þetta var aldrei búið,“ segir Jón Magnús í innleggi sínu og bætir við að þrátt fyrir að ýmislegt hafi verið gert til að minnka skaða veirunnar og að staðan sé orðin betri þýði það ekki að það eigi að hætta að bæta hana enn frekar.

Jón Magnús furðar sig á því að grímuskylda innan heilbrigðisstofnana hafi verið felld niður, það sé óskiljanlegt vegna þeirrar staðreyndar að gríman virki til að minnka dreifingu veirunnar á milli manna.

„Við höfum tækin og tólin til að fyrirbyggja veikindi og dauðsföll. Að við höfum leyft okkur að „nenna ekki að tala um Covid-19“ var aldrei ásættanlegt,“ segir Jón Magnús.

Að sögn Jóns Magnúsar er fjöldi þríbólusettra vel undir viðmiðunarmörkum og það sama megi segja um fjölda bólusettra barna.

Fréttin hefur verið leiðrétt en Jón Magnús er ekki deildarlæknir á Landspítalanum lengur. 16.06.22 klukkan 15:38.